Körfubolti

Eitt stórt reikningsdæmi í lok þriggja leikja viku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emil Barja hefur farið fyrir fjögurra leikja sigurgöngu Haukanna.
Emil Barja hefur farið fyrir fjögurra leikja sigurgöngu Haukanna. vísir/stefán
KR-ingar eru orðnir deildarmeistarar en spennan er samt engu lík í karlakörfunni. Síðustu þrjár umferðir Dominos-deildar karla í körfubolta eru framundan og vegna þess hversu litlu munar á liðunum í þriðja til sjöunda sæti þá getur margt breyst í lokaumferðunum sem fara allar fram á mjög stuttum tíma.

Nú eru sex stig eftir í pottinum en það er hinsvegar aðeins einn sigurleikur (tvö stig) á milli liðanna í þriðja og sjöunda sæti. Liðin í þriðja til fimmta sætið eru jöfn að stigum og það eru aðeins tvö stig í liðin sem eru með jafnmörg stig í sjötta og sjöunda sæti. Liðin raðast upp eftir innbyrðisviðureignum og það er nokkuð borðleggjandi að þetta gæti orðið eitt stórt reikningsdæmi í lokin.

Á næstu sjö dögum hafa mörg lið tækifæri til að hækka sig á stigatöflunni og koma sér í eftirsótta stöðu í úrslitakeppninni. Miðað við góðan árangur liðanna á heimavelli í vetur munu sæti þrjú og fjögur gefa liðunum mjög mikið í átta liða úrslitunum.

Fréttablaðið lagðist aðeins yfir leikina átján sem eftir eru af deildarkeppninni. Miðað við líklegustu úrslitin í síðustu þremur umferðunum gæti vel svo farið að fjögur lið endi jöfn í sætum þrjú til sex sem myndi þýða að innbyrðisviðureignir gætu ráðið heimavallarrétti milli liða sem mætast í átta liða úrslitunum.

Sjö lið ættu að vera nokkuð örugg með sætið í úrslitakeppninni en það er enn óvissa um áttunda og síðasta sætið. Snæfell á enn möguleika á sæti í úrslitakeppninni en staða Hólmara er orðin slæm eftir fimm töp í röð. Liðið á þó enn leik eftir á móti Keflavík um næstu helgi sem gæti breyst í hreinan úrslitaleik um áttunda og síðasta sætið inn í úrslitakeppnina.

Fallbaráttan er einnig í fullum gangi en leikur ÍR og Skallagríms í Seljaskóla í beinni á Stöð 2 Sport á mánudagskvöldið er líklegur leikur upp á líf eða dauða.

Liðin munu nú flest spila þrjá örlagaleiki á aðeins sjö dögum og fyrir lið sem eru vön því að spila einn leik í viku þá gæti slíkt leikjaálag haft sín áhrif.

Leikir kvöldsins eru (klukkan 19.15): Stjarnan-KR, Skallagrímur-Njarðvík, Haukar-ÍR Snæfell-Tindastóll og Grindavík-Keflavík en á morgun mætast síðan Fjölnir og Þór Þorlákshöfn.

Liðin í 3. til 9. sæti og leikir sem eru eftir:

3.  Haukar 22 stig

ÍR (heima) , Tindastóll (úti) Keflavík (heima)

4.  Stjarnan 22 stig

KR (heima), Njarðvík (úti), ÍR (heima)

5.  Njarðvík 22 stig

Skallagrímur (ú.), Stjarnan (h.), Þór Þorl. (ú.)

6.  Þór Þ.  20 stig

Fjölnir (úti), KR (úti), Njarðvík (heima)

7.  Grindavík 20 stig

Keflavík (heima),  Fjölnir (h), Snæfell (ú)

8.  Keflavík 18 stig

Grindavík (ú), Snæfell (h), Haukar (ú)

9. Snæfell 16 stig

Tindastóll (h), Keflavík (ú), Grindavík (h)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×