Bíó og sjónvarp

Grimmar eðlur enn í Júragarðinum

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér má sjá skjáskot úr nýju myndinni. Tilraunir til þess að auka aðsókn í Júragarðinn fara forgörðum.
Hér má sjá skjáskot úr nýju myndinni. Tilraunir til þess að auka aðsókn í Júragarðinn fara forgörðum.
Í vikunni voru átján nýjar risaeðlur kynntar á vefsíðu sem helguð er kvikmyndinni Jurassic World, en myndin verður frumsýnd í sumar. Vefsíðan er látin líta út fyrir að vera vefsíða skemmtigarðs sem ber sama heitið og er sögusvið myndarinnar. Á vefsíðunni er saga hverrar risaeðlu fyrir sig rakin, sem mun væntanlega dýpka upplifun þeirra sem horfa á myndina.

Kvenkyns Rex

Búið er að kynna leikföng sem fara nú í sölu samhliða kynningu á myndinni. Jurassic World-leikföngin voru kynnt á leikfangahátíð í New York. Þar kom í ljós að ein helsta risaeðla kvikmyndarinnar gengur undir nafninu Indominus rex og verður kvenkyns. Í myndinni verður hún genabætt; sneggri, sterkari, klárari og hreyfanlegri útgáfan af hinni þekktu T-Rex-risaeðlu í fyrri myndunum.

Jurassic Park-myndirnar voru mjög vinsælar á tíunda áratugnum. Enn má upplifa stemninguna í myndinni í Universal-garðinum í Flórída-fylki í Bandaríkjunum.
22 árum síðar

Sögusvið hinnar nýju Jurassic World er það sama og í síðustu myndinni. Tuttugu og tvö ár eru síðan áhorfendur fengu síðast að skyggnast inn í lífið á Isla Nublar, þar sem Jurassic Park var reistur. Nýja myndin fjallar um tilraunir til þess að auka aðsókn í Júragarðinn, eftir að sífellt færri eru farnir að heimsækja hann. Eins og í fyrri myndunum draga slíkar tilraunir dilk á eftir sér. 

Tíu árum á eftir áætlun

Þessa nýju mynd um risaeðlurnar í Júragarðinum átti að frumsýna fyrir tíu árum. En ekki tókst að sættast á handrit sem þótti sæma seríunni fyrr en árið 2011. Með aðalhlutverk í myndinni fara Chris Pratt, Bryce Dallas Howard, Judy Greer og Vincent D'Onofrio. Leikstjóri myndarinnar er Colin Trevorrow, sem er þekktastur fyrir leikstjórn sína í gamanmyndinni Safety Not Guaranteed.


Tengdar fréttir

Spielberg vill gera stórmynd á Íslandi

Hinn heimsfrægi kvikmyndaleikstjóri Steven Spielberg hefur í hyggju að gera alþjóðlega stórmynd á Íslandi. Kvikmyndaframleiðslufyrirtækið True North hefur unnið að undirbúningi myndarinnar.

Væntanlegar kvikmyndir árið 2015

Á meðal stórmynda sem frumsýndar verða á komandi ári eru Star Wars: The Force Awakens í leikstjórn J.J. Abrams og The Martian í leikstjórn Ridleys Scott með Matt Damon í aðalhlutverki. Ron Howard sendir frá sér tvær myndir, Inferno og In the Heart of the Sea.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×