Körfubolti

41 árs en samt gríðarlega mikilvægur fyrir Keflavíkurliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Damon í leik á móti KR.
Damon í leik á móti KR. Vísir/Vilhelm
Damon Johnson hélt upp á 41 árs afmælið sitt 1. mars síðastliðinn en það er ekki hægt að segja að afmælisdagurinn hafi hægt eitthvað á elsta leikmanni Dominos-deildarinnar.

Damon hefur farið fyrir tveimur sigrum Keflavíkurliðsins síðan og séð til þess að liðið er ekki aðeins gulltryggt inn í úrslitakeppnina heldur á enn þá möguleika á því að vera með heimavallarrétt í átta liða úrslitunum vinni Keflvíkingar Hauka í lokaumferðinni á fimmtudaginn.

Mikilvægi Damons fyrir Keflavíkurliðið er gríðarlegt og það kemur einstaklega vel fram í tölfræðinni í vetur. Damon hefur spilað 15 af 21 leik Keflvíkinga í deildinni á tímabilinu og er með 15,1 stig, 6,5 fráköst og 2,1 stoðsendingar að meðaltali á 27,4 mínútum.

Þetta er mjög flott tölfræði hjá manni á fimmtugsaldri en það er fylgnin milli góðra leikja hans og sigurleikja Keflvíkinga sem er það athyglisverðasta við framgöngu þessa þrefalda Íslandsmeistara.

Keflavík hefur unnið átta leiki sem hann hefur spilað og í þeim hefur Damon skorað 20,1 stig að meðaltali eða 10,7 stigum meira að meðaltali en í þeim sjö leikjum sem hafa tapast með hann innanborðs.

Damon Johnson hefur skorað sextán stig eða meira í níu leikjum í deildinni í vetur og Keflavíkurliðið hefur unnið átta þeirra. Liðið er hins vegar aðeins með 25 prósent sigurhlutfall í þeim tólf leikjum sem Damon hefur annaðhvort ekki verið með eða skorað fimmtán stig eða minna. Damon glímdi við meiðsli um mitt tímabil en virðist nú kominn á ný í úrslitakeppnisform.



Mikilvægi Damons Johnson fyrir Keflavíkurliðið:

Damon í sigurleikjum (8)*

Stig í leik      20,1

Skotnýting     50 prósent

Fráköst í leik     6,9

Stoðsendingar í leik     2,4

Framlag í leik    21,9

Damon í tapleikjum (7)*

Stig í leik     9,4

Skotnýting     29 prósent

Fráköst í leik     6,0

Stoðsendingar í leik     1,7

Framlag í leik    9,7

*Tölfræði úr Dominos-deildinni




Fleiri fréttir

Sjá meira


×