Anna María Bogadóttir arkitekt er yfirumsjónarkona verkefnisins og hún segir að Hæg breytileg átt búi yfir umtalsverðri sérstöðu varðandi þróun íbúða- og hverfismála. „Það hefur auðvitað alltaf hver kynslóð fyrir sig verið að takast á við þetta og staðið frammi fyrir spurningunni hvernig við viljum sjá þessi mál þróast á komandi árum og áratugum.

Hóparnir unnu síðan saman að tillögum sínum í fjóra mánuði og nutu stuðnings verkefnisstjóra og ráðgjafa á ýmsum sviðum. Þessi þverfaglega nálgun er ný hérlendis en það verður ekki síður spennandi að sjá þetta komast á næsta stig með tilkomu sýningarinnar og þar með aðkomu almennings.“
Anna María segir að það hafi verið afar áhugavert að fylgjast með þessari vinnu. „Það komu allir með opinn huga að þessu verkefni og fögnuðu því tækifæri að fá að leita leiða og lausna. Sjálf er ég arkitekt og eftir að hafa fylgst með þessari vinnu finnst mér að þetta ætti að vera sjálfsagður hluti af ferlinu.
Á sýningunni gefur svo að líta fjórar eiginlegar tillögur að því hvernig við getum í framtíðinni lifað og þroskast innan borgarinnar. Ég vona því innilega að þetta verði til þess að auka rannsóknarvinnu og fjölbreytileika þeirra radda sem koma að þróun íbúðabyggðar framtíðarinnar. Svona verkefni myndar tengsl og reynslu og þannig þróast þetta áfram hægt og rólega.
Að mínu mati á þetta líka við samfélagið almennt. Að opna hugann fyrir ólíkum greinum og hugmyndum skilar okkur miklu fremur fram á við og gerir okkur frekar kleift að horfa á stóra samhengið.“
Aðstandendur sýningarinnar og Listasafn Reykjavíkur fengu eins og margir að finna fyrir veðrinu sem gekk yfir suðvesturhornið á þriðjudag og aðfaranótt miðvikudags. Tjald sem strengt er yfir port safnsins sem er nýtt sem sýningarrými gaf sig að hluta undan stormi og stórhríð.
„Tjaldið hreinlega gaf sig undan snjóþunga og stormi að hluta. Það er óneitanlega grátbroslegt að þetta skuli koma fyrir þegar til stendur að opna sýningu undir heitinu Hæg breytileg átt, en þó engu að síður dálítið viðeigandi líka. Í bókinni sem er gefin út samhliða sýningunni er einmitt að finna grein eftir Andra Snæ Magnason sem ber heitið Hæg breytileg átt eða norðan bál.
Það er þó rétt að taka fram að þetta hefur aldrei gerst áður og portið er fyllilega öruggt. Við tókum ákvörðun um að fresta opnuninni um sólarhring svo þetta fari nú allt saman vel fram og það fari vel um alla okkar gesti.“