Körfubolti

Verða KR-ingar með sópinn á lofti í Vesturbænum í kvöld?

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sumarfrí? Það er að duga eða drepast fyrir Grindjána.
Sumarfrí? Það er að duga eða drepast fyrir Grindjána. Fréttablaðið/Ernir
Úrslitakeppnin í Dominos-deild karla í körfubolta heldur áfram í kvöld og getur fyrsta liðið tryggt sig áfram í undanúrslitin. Íslandsmeistarar KR taka á móti Grindavík í DHL-höllinni í Vesturbænum, en þeir eru 2-0 yfir.

Grindjánar fóru illa að ráði sínu í leik tvö á heimavelli sínum í Röstinni þar sem þeir voru mest 18 stigum yfir í seinni hálfleik en töpuðu.

KR vann Grindavík, 3-1, í lokaúrslitum í fyrra og er nú búið að vinna fimm af sex síðustu leikjum liðanna í úrslitakeppni Dominos-deildarinnar. Grindvíkingar þurfa heldur betur að taka á honum stóra sínum ef þeir ætla ekki að fara í sumarfrí í mars.

Í hinum leik kvöldsins mætast Njarðvíkingar og Stjörnumenn í Ljónagryfjunni, en sá leikur verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport klukkan 19.00.

Staðan í þeirri rimmu er 1-1 eftir heimasigra hvors liðs í miklum spennuleikjum. Njarðvíkingar unnu fyrsta leikinn á sínum heimavelli í framlengingu og Stjörnumenn vörðu lokaskot Njarðvíkinga á sunnudaginn um leið og leiktíminn rann út. Þessi sería er sú líklegasta til að fara í oddaleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×