Körfubolti

Haukar geta jafnað árangur Keflavíkur | Báðir leikirnir í beinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tveir oddaleikir fara fram í úrslitakeppninni í dag.
Tveir oddaleikir fara fram í úrslitakeppninni í dag. vísir/vilhelm
Það ræðst í dag hvaða lið mæta KR og Tindastóli í undanúrslitarimmunum tveimur í Domino‘s-deild karla. Þá fara fram oddaleikirnir í síðustu tveimur viðureignum 8-liða úrslitanna.

Haukar eru í einstakri stöðu því þeir geta náð því að verða annað liðið í sögunni til að vinna einvígi í úrslitakeppninni eftir að hafa lent 2-0 undir. Eina liðið sem hefur afrekað það er einmitt andstæðingur Haukanna í dag, lið Keflavíkur.

Það gerðu Suðurnesjamenn í undanúrslitunum árið 2008 er liðið skellti ÍR, 3-2, eftir að hafa lent 2-0 undir en Keflvíkingar fóru þá alla leið og urðu Íslandsmeistarar. Leikur liðanna á Ásvöllum hefst klukkan 16.00 í dag.

Þá taka Njarðvíkingar á móti Stjörnumönnum í Ljónagryfjunni. Rimma liðanna hefur verið hnífjöfn og skemmtileg en allir leikirnir í henni hafa ráðist á lokamínútunum. Stefan Bonneau, Bandaríkjamaðurinn í liði Njarðvíkur, hefur verið afar áberandi í úrslitakeppninni og ljóst að það mun mikið mæða á honum í kvöld.

Ef Keflavík vinnur í kvöld mætir liðið KR í undanúrslitum og Tindastóll þá sigurliðinu í rimmu Njarðvíkur og Stjörnunnar. Það snýst hins vegar við ef Haukarnir hafa betur gegn Keflavík. Leikurinn í Hafnarfirði hefst klukkan 16.00 og í Njarðvík fer veislan af stað kl. 19.15. Báðir verða í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×