Erlent

Þjóðarleiðtogar funda vegna flóttamanna

stefán rafn sigurbjörnsson skrifar
Týr á Ítalíu. Skip Landhelgisgæslunnar hefur sinnt verkefnum þar sem flóttafólki við strendur Afríku hefur verið komið til bjargar.
Týr á Ítalíu. Skip Landhelgisgæslunnar hefur sinnt verkefnum þar sem flóttafólki við strendur Afríku hefur verið komið til bjargar. Mynd/LHG
„Það er pólitísk og siðferðisleg skylda okkar að bregðast við flóttamannavandanum í Miðjarðarhafi,“ sagði Federica Mogherini, framkvæmdastjóri utanríkismála Evrópusambandsins, á fundi utanríkisráðherra sambandsins í Lúxemborg í gær. „Miðjarðarhafið er haf okkar allra og við verðum að vinna saman sem Evrópubúar,“ sagði Mogherini enn fremur. Á sama tíma og þessi orð féllu voru ítalskar og maltneskar björgunarsveitir að bjarga tveimur flóttamannabátum úr neyð á Miðjarðarhafinu.

Federica Mogherini
Evrópusambandið hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir skort á aðgerðum í þágu flóttamanna á Miðjarðarhafinu en sambandið dró úr aðgerðum á síðasta ári. Margir leiðtogar og ráðherrar sambandsins hafa kallað eftir að sambandið og aðildarríkin setji aftur aukið fjármagn í björgunaraðgerðir. Ekki eru allir á einu máli um hvernig eigi að bregðast við vandanum en sumir vilja fjölga björgunarskipum á Miðjarðarhafi en aðrir vilja koma upp flóttamannabúðum í Norður-Afríku. Leiðtogar Evrópusambandsríkjanna koma saman til neyðarfundar næsta fimmtudag til að ræða mögulegar lausnir við vandanum.

Zeid Ra'ad al-Hussein, framkvæmdastjóri mannréttindamála hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði að Evrópa væri að hætta á að gera Miðjarðarhafið að grafreit. Hann var harðorður í garð stefnu Evrópusambandsins en hann sagði að hún einkenndist af skammsýni og seinlegum pólitískum viðbrögðum sem væru einungis til þess fallin að höfða til fordómafullra stjórnmálahreyfinga sem eitrað hafa almannaálitið.

Stjórnvöld í Ítalíu telja að um 20.000 flóttamenn hafi komið til Ítalíu yfir Miðjarðarhafið og hátt í 1.000 manns hafi týnt lífi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×