Erlent

Sprengja forn musteri í Sýrlandi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Óttast er að Íslamska ríkið haldi áfram að sprengja fornminjar.
Óttast er að Íslamska ríkið haldi áfram að sprengja fornminjar. fréttablaðið/ap
Hersveitir Íslamska ríkisins sprengdu upp tvö forn musteri í borginni Palmyra á dögunum. Frá þessu greindi Maamoun Abdulkarim, formaður fornminja- og safnadeildar ríkisstjórnar Sýrlands á miðvikudag.

Annað musteranna var grafhýsi Mohammads Bin Ali sem var afkomandi Alis, en Ali og spámaðurinn Múhameð voru bræðrasynir. Ali var jafnframt tengdasonur Múhameðs.

Hitt musterið var grafhýsi súfistans Nizar Abu Bahaa Eddine. Súfismi er dulhyggjuarmur íslams.

Hersveitir Íslamska ríkisins sem stóðu fyrir sprengingunum eru róttækir súnní-múslimar sem eru á móti því sem þeir kalla skurðgoðadýrkun sjía-múslima.Þeir líta á sjía-múslima og súfista sem villutrúarmenn.

Óttast hefur verið um fornminjar Palmýraborgar frá því Íslamska ríkið hertók borgina í síðasta mánuði. Þá sérstaklega rústir frá tíma Rómaveldis sem hafa lengi verið einn vinsælasti ferðamannastaður Mið-Austurlanda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×