Tækifæri og mat á áhættu Óli Kristján Ármannsson skrifar 10. júlí 2015 07:00 Meðal mála sem Alþingi mokaði frá sér á síðustu metrunum fyrir þinglok er frumvarp til breytinga á lögum um innflutning dýra. Þarna er bætt við ákvæði um að flytja megi inn erfðaefni holdanautgripa með það fyrir augum að efla innlenda nautakjötsframleiðslu. Málið er ekki alveg óumdeilt, 44 þingmenn sögðu já, sjö nei og tveir greiddu ekki atkvæði (tíu voru fjarverandi). Í umræðum um málið hafði hluti þingmanna af því áhyggjur að með innflutningnum væri ekki nægilega gætt að velferð dýra sem hér eru fyrir. Í útlöndum sé að finna sjúkdóma sem leggjast á skepnur en hafa ekki borist hingað til lands. Þá kunni búfénaður í einangrun sinni hér að vera viðkvæmur fyrir útlendri óáran sem þarlendar skepnur þola betur. Þyngst vegur þó gagnrýni Margrétar Guðnadóttur veirufræðings sem í Bændablaðinu varar við innflutningi erfðaefnisins. Sér í lagi vegna þess að ekki geti verið að kúariðusýkillinn sem barst frá Bretlandi um alla Norður-Evrópu sé dauður. „Riðusýklar eru lífseigustu sýklar sem við þekkjum. Venjulegar aðferðir við dauðhreinsun á öðrum sýklum duga alls ekki til að drepa riðusýkla,“ bendir hún á og áréttar um leið að hér hafi í heila öld verið barist við riðu í sauðfé. Sú riða hafi ekki borist í menn svo vitað sé, en kúariða sé öðruvísi. „Kúariðusýkillinn smitar fólk, og af því smiti fá menn banvænan heilasjúkdóm, rétt eins og kýrnar. Þegar kúariðusýkillinn var virkastur í mörgum Evrópulöndum, rétt fyrir síðustu aldamót, olli hann banvænum heilasjúkdómi í mönnum.“ Margrét bendir á að íslenski kúastofninn hafi ekki enn þá borið í sér neina banvæna smitsjúkdóma og sé laus við hvítblæði sem víða finnist í erlendum kúm. Varnaðarorð sem þessi ber að taka alvarlega og ekki annað að sjá af umsögn meirihluta atvinnuveganefndar um frumvarpið en að það hafi verið gert. Þannig verður innflutningur fósturvísa á einangrunarstöð og „gripum sem fæðast af því erfðaefni verði í framhaldi heimilt að dreifa af einangrunarstöð við níu til tólf mánaða aldur að undangenginni rannsókn og mati á áhættu á að með gripum geti borist sjúkdómar“. Fara á varlega, án þess þó að láta tilhæfulausan ótta við afar fjarlæga möguleika á hrakförum stöðva alla framþróun. Með réttum vinnubrögðum virðist sá möguleiki afar fjarlægur að vandamál geti hlotist af innflutningi sem þessum. Fremur ber að fagna þeim tækifærum sem innflutningurinn færir bændum og auknum möguleikum þeirra á að bæta og þróa framleiðslu sína. Að sama skapi ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að kúabændur með mjólkurbú fái að þróa og breyta sínum framleiðsluháttum kjósi þeir svo að gera með kynblöndun eða innflutningi á erlendu kyni mjólkurkúa. Íslenska bændur á ekki að binda á klafa einhverrar byggðasafnsnálgunar heldur leyfa þeim að ráða sínum málum sjálfir. Þeir sem sérstakan áhuga hafa á íslenska stofninum geta eftir sem áður einbeitt sér að honum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Alþingi Óli Kr. Ármannsson Mest lesið Blekking Valkyrjanna Högni Elfar Gylfason Skoðun Ég vil fá boð í þessa veislu! Silja Björk Björnsdóttir Skoðun Er skilorðsbundin refsing hér við hæfi? Hvaða skilaboð sendir þessi dómur? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Með utanríkisstefnu í molum – stefnir Ísland í stríð við Íran? Ingólfur Shahin Skoðun Tölum endilega um staðreyndir Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Harmleikurinn í Úkraínu: Svör við nokkrum spurningum Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Píkudýrkun Kolbrún Bergþórsdóttir Skoðun Halldór 04.01.2025 Halldór Mögnum markþjálfun til framtíðar Lella Erludóttir Skoðun Forvitni er lykillinn að framtíðinni Árni Sigurðsson Skoðun
Meðal mála sem Alþingi mokaði frá sér á síðustu metrunum fyrir þinglok er frumvarp til breytinga á lögum um innflutning dýra. Þarna er bætt við ákvæði um að flytja megi inn erfðaefni holdanautgripa með það fyrir augum að efla innlenda nautakjötsframleiðslu. Málið er ekki alveg óumdeilt, 44 þingmenn sögðu já, sjö nei og tveir greiddu ekki atkvæði (tíu voru fjarverandi). Í umræðum um málið hafði hluti þingmanna af því áhyggjur að með innflutningnum væri ekki nægilega gætt að velferð dýra sem hér eru fyrir. Í útlöndum sé að finna sjúkdóma sem leggjast á skepnur en hafa ekki borist hingað til lands. Þá kunni búfénaður í einangrun sinni hér að vera viðkvæmur fyrir útlendri óáran sem þarlendar skepnur þola betur. Þyngst vegur þó gagnrýni Margrétar Guðnadóttur veirufræðings sem í Bændablaðinu varar við innflutningi erfðaefnisins. Sér í lagi vegna þess að ekki geti verið að kúariðusýkillinn sem barst frá Bretlandi um alla Norður-Evrópu sé dauður. „Riðusýklar eru lífseigustu sýklar sem við þekkjum. Venjulegar aðferðir við dauðhreinsun á öðrum sýklum duga alls ekki til að drepa riðusýkla,“ bendir hún á og áréttar um leið að hér hafi í heila öld verið barist við riðu í sauðfé. Sú riða hafi ekki borist í menn svo vitað sé, en kúariða sé öðruvísi. „Kúariðusýkillinn smitar fólk, og af því smiti fá menn banvænan heilasjúkdóm, rétt eins og kýrnar. Þegar kúariðusýkillinn var virkastur í mörgum Evrópulöndum, rétt fyrir síðustu aldamót, olli hann banvænum heilasjúkdómi í mönnum.“ Margrét bendir á að íslenski kúastofninn hafi ekki enn þá borið í sér neina banvæna smitsjúkdóma og sé laus við hvítblæði sem víða finnist í erlendum kúm. Varnaðarorð sem þessi ber að taka alvarlega og ekki annað að sjá af umsögn meirihluta atvinnuveganefndar um frumvarpið en að það hafi verið gert. Þannig verður innflutningur fósturvísa á einangrunarstöð og „gripum sem fæðast af því erfðaefni verði í framhaldi heimilt að dreifa af einangrunarstöð við níu til tólf mánaða aldur að undangenginni rannsókn og mati á áhættu á að með gripum geti borist sjúkdómar“. Fara á varlega, án þess þó að láta tilhæfulausan ótta við afar fjarlæga möguleika á hrakförum stöðva alla framþróun. Með réttum vinnubrögðum virðist sá möguleiki afar fjarlægur að vandamál geti hlotist af innflutningi sem þessum. Fremur ber að fagna þeim tækifærum sem innflutningurinn færir bændum og auknum möguleikum þeirra á að bæta og þróa framleiðslu sína. Að sama skapi ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að kúabændur með mjólkurbú fái að þróa og breyta sínum framleiðsluháttum kjósi þeir svo að gera með kynblöndun eða innflutningi á erlendu kyni mjólkurkúa. Íslenska bændur á ekki að binda á klafa einhverrar byggðasafnsnálgunar heldur leyfa þeim að ráða sínum málum sjálfir. Þeir sem sérstakan áhuga hafa á íslenska stofninum geta eftir sem áður einbeitt sér að honum.
Er skilorðsbundin refsing hér við hæfi? Hvaða skilaboð sendir þessi dómur? Ole Anton Bieltvedt Skoðun
Er skilorðsbundin refsing hér við hæfi? Hvaða skilaboð sendir þessi dómur? Ole Anton Bieltvedt Skoðun