Liðsmenn Íslamska ríkisins felldu að minnsta kosti níutíu Íraka, þar af fimmtán börn, þegar bílsprengja sprakk á götumarkaði í Bagdad, höfuðborg Íraks, á laugardaginn. Heimamenn í Bagdad voru að fagna Eid al-Fitr-hátíðinni, sem markar lok ramadan, föstumánaðar múslima. Hátíðin er ein sú stærsta í íslam.
„Fólk brann inni í bílum sínum og á götum úti því engir sjúkra- eða slökkviliðsbílar náðu á svæðið,“ sagði Muthanna Saadoun, 25 ára götusópari, við íraska fjölmiðla. Mjög þröngt var á götumarkaðinum sem hindraði aðkomu sjúkrabíla.
„Eldur, lík, slasaðir, konur með grátandi börn,“ sagði Salem Abu Moqtada, 34 ára grænmetissali, þegar hann lýsti svæðinu.
Auk þeirra níutíu sem féllu slösuðust 120 í sprengingunni sem varð í hverfi sjíamúslima, sem eru í minnihluta í Írak.
Forsætisráðherra Íraks, Haider al-Abadi, fordæmdi árásina og kallaði hana fyrirlitlegan glæp Íslamska ríkisins.
Einnig dró til tíðinda hjá Íslamska ríkinu í Sádi-Arabíu á laugardag. Þarlend yfirvöld tilkynntu um handtökur um fjögur hundruð liðsmanna Íslamska ríkisins á síðustu vikum í landinu og sögðu að þannig hefði verið komið í veg fyrir hryðjuverkaárásir þeirra.
Skæruliðar Íslamska ríkisins drápu fimmtán börn í Bagdad
Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
