Erlent

Vara við frekari árásum í Evrópu

Samúel Karl Ólason skrifar
Rob Wainwright yfirmaður Europol segir von á fleiri árásum í Evrópu.
Rob Wainwright yfirmaður Europol segir von á fleiri árásum í Evrópu. Vísir/EPA
Íslamska ríkið hefur þróað nýja árásaraðferð sem þeir ætla sér sérstaklega að beita í Evrópu. Þetta sagði Rob Wainwright, yfirmaður Europol, í dag við opnun nýrrar andhryðjuverkamiðstöðvar Europol í Hag. Miðstöðinni er ætlað að auka upplýsingaflæði og finna tengsl á milli hryðjuverka og annars konar glæpastarfsemi.

Stofnunin birti í dag nýja skýrslu um samtökin Íslamskt ríki sem nálgast má hér neðst í fréttinni.

Í skýrslunni segir að búast megi við fleiri hryðjuverkaárásum í Evrópu, en þá sérstaklega í Frakklandi. Þeim verði ætlað að valda hvað mestu mannfalli meðal borgara. Auk árása af þessu tagi er alltaf hætta á einstökum aðilum fremja árásir, en sú hætta hefur ekki minnkað samkvæmt Europol.

Minnst fimm þúsund manns með ríkisborgararétt meðal ESB ríkja hafa farið til Sýrlands og tekið þátt í átökunum þar. Samkvæmt Wainwright hafa margir þeirra snúið aftur heim.

Vígamenn samtakanna eiga af stórum hluta við geðræn vandamál að stríða og margir hverjir hafa verið dæmdir fyrir glæpi. Bæði smáa og stóra. Þá er sérstaklega tekið fram í skýrslunni að aldrei hafi fundist afgerandi vísbendingar um að vígamenn hafi notað straum flóttamanna til að komast til Evrópu.

Þó er varað við því að flóttamenn eigi í hættu með að verða fyrir öfgavæðingu (e. radicalisation).

Þá segir einnig í skýrslunni að árásir ISIS í París í nóvember, þar sem 130 létu lífið, og gegn rússnesku farþegaflugvélinni yfir Egyptalandi, þar sem 224 létu lífið, sýni fram á að samtökin hafi ætlað sér fleiri árásir á heimsvísu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×