Erlent

Rússar telja að Tyrkir hyggi á innrás inn í Sýrland

Atli Ísleifsson skrifar
Þessa dagana standa yfir í Genf viðræður um átökin í Sýrlandi, þar sem fulltrúar bæði stjórnar og stjórnarandstöðu eiga að reyna að finna lausnir.
Þessa dagana standa yfir í Genf viðræður um átökin í Sýrlandi, þar sem fulltrúar bæði stjórnar og stjórnarandstöðu eiga að reyna að finna lausnir. Vísir/AFP
Talsmaður Rússlandshers segir herinn hafa réttmætar ástæður til að halda að Tyrkir vinni nú að undirbúningi þess að halda með hersveitir sínar inn í Sýrland.

Rússneski hershöfðinginn Igor Konashenkov segir í yfirlýsingu að Rússlandsher hafi skráð æ fleiri merki þess að Tyrklandsher vinni nú í leyni að því að undirbúa tyrkneska hermenn undir innrás inn í Sýrland.

Konashenkov segir að myndir frá landamærastöðvum Tyrklands og Sýrlands, sem teknar voru bæði í lok október og janúar, sýni uppbyggingu Tyrkja á samgönguinnviðum sem myndi auðvelda flutning herliðs og vopna yfir landamærin til Sýrlands.

Þessa dagana standa yfir í Genf viðræður um átökin í Sýrlandi, þar sem fulltrúar bæði stjórnar og stjórnarandstöðu eiga að reyna að finna lausnir, og hafa til þess stuðning frá Sameinuðu þjóðunum, Bandaríkjunum, Rússlandi, Evrópuríkjum og fleiri löndum.

Harðar loftárásir stjórnarhersins og Rússa á borgina Aleppo hafa þó komið þessum viðræðum í uppnám. Á þriðjudaginn neituðu fulltrúar uppreisnarmanna að mæta til viðræðnanna vegna loftárásanna.

Þetta eru fyrstu meiriháttar loftárásir stjórnarhersins á borgina síðan í haust, þegar Rússar hófu loftárásir sínar á svæði uppreisnarmanna í Sýrlandi.

Bandaríkin hafa skorað á Rússa að hætta loftárásum á meðan friðartilraunir standa yfir, en Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segir það ekki koma til greina fyrr en hryðjuverkahópar hafa verið brotnir á bak aftur.


Tengdar fréttir

Viðræður í uppnámi vegna loftárása

Þessa dagana standa yfir í Genf viðræður um átökin í Sýrlandi, þar sem fulltrúar bæði stjórnar og stjórnarandstöðu eiga að reyna að finna lausnir, og hafa til þess stuðning frá Sameinuðu þjóðunum, Bandaríkjunum, Rússlandi, Evrópuríkjum og fleiri löndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×