Erlent

Vilja taka ISIS af netinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/EPA
Áróðursvél Íslamska ríkisins keyrir á internetinu. Hryðjuverkasamtökin beita samfélagsmiðlum til að koma áróðri sínum og upplýsingum á framfæri sem og til þess að laða að ungt og áhrifagjarnt fólk. Þar að auki nota samtökin netið til að hvetja öfgafólk víða um heim til að fremja árásir í heimalöndum sínum.

Stjórnvöld Írak biðla nú til gervihnattafyrirtækja að stöðva streymi internetsins til yfirráðasvæðis ISIS. Þannig megi stöðva áróðursvélina áhrifaríku.

Starfsmenn miðla eins og Twitter og Telegram standa í ströngu við að elta uppi útsendara ISIS og eyða reikningum þeirra. Það er þó nánast endalaus eltingaleikur, þar sem fólkið opnar einfaldlega nýja reikninga og það jafnvel samdægurs.

Lítið er um virka senda sem hægt er að flytja gögn um í þeim hluta Írak sem ISIS stjórnar. Þess í stað notast vígamenn við gervihnattadiska og örbylgjudiska til að nýta þráðlaust net á yfirráðasvæði stjórnvalda.

Samkvæmt frétt Reuters yrði þó erfitt að verða við bón ríkisstjórnarinnar þar sem enginn gerir greinarmun á því hverjir nota þjónustu fyrirtækjanna. Landamæri yfirráðasvæðis ISIS færist reglulega til og flókið net milliliða gerir erfitt að finna út hvaða fyrirtæki séu að selja ISIS aðgang að netinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×