Erlent

Fjárhagsvandræði hjá Íslamska ríkinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Vígamenn ISIS.
Vígamenn ISIS. Vísir/AFP
Íslamska ríkið á í erfiðleikum með útgjöld sín. Loftárásir og aðrar aðgerðir hafa gert tekjuöflun þeirra gífurlega erfiða og mikil lækkun olíuverðs kemur einnig inni. Stjórnendur ISIS hafa dregið úr launum vígamanna sinna og embættismanna. Þar að auki fá vígamenn þeirra ekki nokkur fríðindi lengur frá yfirmönnum sínum.

Föngum ISIS stendur nú til boðað að greiða 500 dali, um 63 þúsund krónu, fyrir frelsi sitt og íbúum á yfirráðasvæði þeirra er nú skipað að greiða fyrir þjónustu með dölum. Verð fyrir nauðsynjavörur hafa stigmagnast og rafmagn er skammtað.

Samtökin hafa byggt upp hollustu vígamanna með fínum launum og fríðindum eins og brúðkaupsleyfum og barnabótum, en öllu slíku hefur verið hætt samkvæmt frétt AP. Jafnvel smávægileg fríðindi, eins og ókeypis orkudrykkir og Snickers, eru ekki lengur á boðstólum.

Samkvæmt AP reyna ISIS nú að fara aðra leið í fjáröflun og þar kemur inn í að auka umsvif samtakanna í Líbýu. Þar eru ekki gerðar loftárásir gegn þeim. Þá eru þeir að mestu leyti hættir að refsa fólki fyrir að brjóta á reglum þeirra með til dæmis húðstrýkingum. Þess í stað er sektum beitt í frekara mæli.

Hér að neðan má sjá myndband af loftárás Bandaríkjahers á fjármálamiðstöð ISIS í Mosul í Írak sem gerð var 11. janúar síðastliðin.

Á myndbandinu sést þegar tveimur 900 kílógramma sprengjum er varpað á hús. Eftir mikla sprengingu sést hvar heilt fjall af reiðufé þeytist upp í loftið og fellur niður til jarðar og á nærliggjandi húsþök.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×