Fótbolti

Hjörtur lánaður til Gautaborgar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hjörtur Hermannsson í leik með U-21liði Íslands.
Hjörtur Hermannsson í leik með U-21liði Íslands. Vísir/Valli
Varnarmaðurinn Hjörtur Hermannsson hefur verið lánaður frá hollenska félaginu PSV til IFK Gautaborgar í Svíþjóð en félögin tilkynntu það í morgun.

Hjörtur er 21 árs miðvörður og hefur verið á mála hjá PSV síðan 2012. Hann gerði nýjan þriggja ára samning við félagið í vor þrátt fyrir að hann hafi átt við erfið meiðsli að stríða. Hjörtur hefur svo í vetur náð að spila nokkuð reglulega með U-21 liði PSV.

Hann var til reynslu hjá IFK Gautaborg fyrr í mánuðinum og stóð sig vel. Lánssamningur hans gildir fram á mitt sumar en framhaldið verður ákveðið þá.

Hjörtur á fjölda leikja að baki með yngri landsliðum Íslands og spilaði sinn fyrsta A-landsleik þegar hann kom inn á sem varamaður gegn Bandaríkjunum í lok síðasta mánaðar.

Hjálmar Jónsson er á mála hjá IFK Gautaborg, rétt eins og undanfarin fjórtán ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×