Innlent

Sex flóttamenn fengu dvalarleyfi en tuttugu hafnað

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Tuttugu og einn var sendur til baka til annars Evrópuríkis á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.
Tuttugu og einn var sendur til baka til annars Evrópuríkis á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Vísir/Stefán
Fimm hælisleitendur fengu jákvætt svar við umsóknum sínum frá Útlendingastofnun í janúar. Einn til viðbótar fékk dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Þetta kemur fram í talnaefni sem stofunin hefur tekið saman og birt á vefsíðu sinni.

Tuttugu umsóknum hælisleitenda, þeirra sem leituðu eftir viðbótarvernd eða dvalarleyfis vegna mannúðarsjónarmiða var hins vegar synjað. 

Tuttugu og einn var sendur til baka til annars Evrópulands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar en einn fékk vernd í öðru ríki. Þá voru fjórar umsóknir dregnar til baka.

Samtals voru því 52 umsóknir um hæli, viðbótarvernd og mannúðarleyfi afgreiddar.

Útlendingastofnun birtir líka tölur um umsækjendur um vernd í janúar eftir þjóðerni og kyni. Þar kemur í ljós að flestar umsóknirnar í mánuðinum er frá íröskum körlum, eða tólf talsins.

Fimmtán umsóknir bárust frá Albönum; frá níu körlum, fjórum konum, einu barni í fylgd og einu fylgdarlausu barni. 

Átta umsóknir bárust frá Sýrlendingum en þar af frá tveimur fylgdarlausum börnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×