„Það er ekki búið negla dagsetningu en það verður í þessum mánuði. Það er stutt í það,“ sagði Ómar í samtali við þá Hjörvar Hafliðason og Kjartan Atla Kjartansson.
Líkt og undanfarin 14 ár verður Ísland í búningum frá ítalska íþróttavöruframleiðandanum Errea en Ómar vildi lítið gefa upp hvort væntanlegur búningur væri á einhvern hátt einstakur, sérstaklega í ljósi þess að Ísland er á leið á sitt fyrsta stórmót.
Leikmenn íslenska liðsins munu bera föðurnöfn sín aftan á treyjunum í Frakklandi, líkt og í undankeppninni. Og sem fyrr verður varabúningurinn hvítur.
Ómar segir að KSÍ setji sig ekki á móti því að Tólfan, stuðningsmannafélag landsliðsins, sé með sína eigin búninga. Hann viðurkennir þó að KSÍ myndi helst vilja sjá Tólfuna í landsliðstreyjunni.
„Tólfan eru sjálfstæð og frjáls félagasamtök sem eru ekki með neina formlega tengingu við KSÍ. Þeim er auðvitað frjálst að vera með sinn eigin einkennisbúning,“ sagði Ómar og bætti við:
„Eðlilega myndi Errea vilja að stuðningsmenn íslenska landsliðsins myndu kaupa sér landsliðsbúninginn og vonandi gera þeir það bara.“
Hlusta má á viðtalið við Ómar í spilaranum hér að ofan.
