Fótbolti

Solskjær: Svíþjóð hefur Zlatan, Danir hafa Laudrup en Ísland hefur Eið Smára

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ole Gunnar Solskjær og Eiður Smári með treyju númer 22.
Ole Gunnar Solskjær og Eiður Smári með treyju númer 22. mynd/moldefk
Ole Gunnar Solskjær, þjálfari Molde, er vægast sagt kátur með að hafa landað Eiði Smára Guðjohnsen á eins árs samning en Eiður skrifaði undir við liðið í dag og æfði í fyrsta sinn með nýjum liðsfélögum sínum í morgun.

Solskjær þekkir Eið Smára úr ensku úrvalsdeildinni þar sem Norðmaðurinn spilaði með Manchester United á sama tíma og Eiður var á mála hjá Chelsea. „Svíþjóð hefur Zlatan, Danir hafa Michael Laudrup og Ísland hefur Eið Smára,“ segir Solskjær í viðtali við rbnett.no.

Sjá einnig:Eiður: Verður að svara þegar maður eins og Ole Gunnar hringir

Þessir þrír fótboltasnillingar sem Norðmaðurinn telur upp eiga allir það sameiginlegt að hafa spilað fyrir Barcelona. „Eiður varð Englandsmeistari með Chelsea og vann Meistaradeildina með Barcelona. Við erum að fá mann með magnaða ferilskrá,“ segir Solskjær.

„Hann spilaði með mönnum eins og Thierry Henry og Messi og var undir stjórn Pep Guardiola. Við eigum klárlega eftir að læra eitthvað af þessum manni.“

Eiður Smári og Solskjær hafa oft mæst á vellinum og þá spjallað saman en nú hringdi norski þjálfarinn í íslenska landsliðsmanninn til að fá hann í sínar raðir.

„Eiður er enn hungraður og hefur mikið að spila fyrir. Hann er búinn að vera í íslenska landsliðinu í 20 ár sem er nú komið í lokakeppni. Hann verður auðvitað í liðinu í Frakklandi,“ segir Ole Gunnar Solskjær.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×