Sport

Íslensku stelpurnar rúlluðu upp Tyrkjum á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Stefán
Íslenska kvennalandsliðið í íshokkí byrjaði frábærlega í 2. deild heimsmeistaramótsins sem fer fram í Jaca á Spáni.

Íslensku stelpurnar unnu 7-2 stórsigur á Tyrkjum í fyrsta leik sínum í dag eftir að hafa verið 2-0 yfir eftir fyrsta leikhlutann og unnið lokaleikhlutann 3-0.

Flosrún Jóhannesdóttir var valin besti leikmaður leiksins en hún skoraði þrennu auk þess að leggja upp eitt mark fyrir félaga sína í liðinu.

Sunna Björgvinsdóttir, Guðrún Viðarsdóttir, Birna Baldursdóttir og Diljá Björgvinsdóttir skoruðu hin mörk íslenska liðsins.

Anna Ágústsdóttir átti þrjá stoðsendingar og Sarag Shantz-Smiley gaf tvær stoðsendingar. Flosrún átti eina stoðsendingu og það átti Védís Valdemarsdóttir einnig.

Guðlaug Þorsteinsdóttir varði 22 af 24 skotum sem komu á hana í leiknum en það gerir 90,9 prósent markvörslu.

Birna Baldursdóttir skoraði fyrsta markið strax á 2. mínútu eftir stoðsendingu Védísar og Flosrún kom íslenska liðinu síðan í 2-0 á 6. mínútu.

Tyrkir jöfnuðu í öðrum leikhluta en þær Diljá Björgvinsdóttir og Flosrún Jóhannesdóttir komu Íslandi aftur tveimur mörkum yfir.

Flosrún Jóhannesdóttir innsiglaði síðan þrennuna sína áður en Sunna Björgvinsdóttir og Guðrún Viðarsdóttir gulltryggðu sigurinn.

Næsti leikur íslenska liðsins er strax á morgun 1. mars þegar liðið mætir Nýja Sjálandi. Leikurinn hefst klukkan 15.30 að íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×