Leyniþjónustur Bandaríkjanna reyna nú að staðfesta að Abu Omar al-Shishani, sem betur var þekktur sem „Tjetjeninn“, hafi fallið í loftárásum á föstudaginn. Árásin var gerð nærri bænum al-Shaddadi og er talið „líklegt“ að Shishani hafi fallið í árásinni.
Hann var þekktur sem einn af hæfustu hernaðarleiðtogum Íslamska ríkisins og var fyrrverandi meðlimur í sérsveit hersins í Georgíu.
Samkvæmt frétt CNN mun dauði hans hafa mikil áhrif á getu ISIS og þá sérstaklega burði þeirra til að fá erlenda vígamenn til að ganga til liðs við sig. Talið er að tólf aðrir vígamenn hafi fallið í árásunum.
Shishani var yfirmaður hernaðaraðgerða í norðurhluta Sýrlands.
Háttsettur leiðtogi ISIS „líklega“ felldur í loftárásum
Samúel Karl Ólason skrifar
