Fótbolti

Tvö Íslendingalið áfram í sænsku bikarkeppninni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnór Ingvi og félagar í Norrköping eru komnir áfram í sænsku bikarkeppninni.
Arnór Ingvi og félagar í Norrköping eru komnir áfram í sænsku bikarkeppninni. vísir/getty
Íslendingaliðin Hammarby og Norrköping eru komin áfram í 8-liða úrslit sænsku bikarkeppninnar í fótbolta.

Hammarby tryggði sér farseðilinn í 8-liða úrslitin með 1-3 sigri á Djurgården á útivelli.

Ögmundur Kristinsson, Birkir Már Sævarsson og Arnór Smárason voru allir í byrjunarliði Hammarby í dag en liðið fékk sjö stig í riðli 6, jafn mörg og Syrianska. Markatala Hammarby var hins vegar betri.

Arnór Ingvi Traustason og Jón Guðni Fjóluson voru báðir í byrjunarliði Norrköping sem gerði 1-1 jafntefli við Jönköpings á heimavelli. Sænsku meistararnir fengu sjö stig í riðli 1, þremur meira en Jönköpings.

Í sama riðli mættust Östersunds og AFC United. Östersunds, sem er nýliði í sænsku 1. deildinni, vann leikinn með þremur mörkum gegn engu. Haraldur Björnsson var í byrjunarliði Östersunds og hélt marki sínu hreinu.

Hjörtur Hermannsson var í byrjunarliði IFK Göteborg sem vann 3-0 sigur á Halmstad í riðli 2. Sigurinn dugði Göteborg þó ekki til að komast í 8-liða úrslitin. Liðið fékk fimm stig í riðlinum, einu minna en Halmstad sem komst áfram. Hjálmar Jónsson var ekki í leikmannahópi Göteborg í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×