Íslenski boltinn

Nýtt nafn í íslenskri knattspyrnu | Skástrikið heyrir sögunni til

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Úr leik BÍ/Bolungarvíkur í 1. deild.
Úr leik BÍ/Bolungarvíkur í 1. deild. Vísir/Anton
Nafn liðs BÍ/Bolungarvíkur heyrir nú sögunni til í íslenskri knattspyrnu því Djúpmenn hafa nú skipt um nafn á félagi sínu og skrástrikið verður hvergi sjáanlegt á knattspyrnusumrinu 2016.

Knattspyrnusamband Íslands segir frá því á heimasíðu sinni að eitt félag hafi skipt um nafn.

Íþróttafélagið Vestri frá Ísafirði var stofnað laugardaginn 16. janúar síðastliðinn og tekur yfir allar skráningar félaganna BÍ og Bolungarvíkur í mótum á vegum KSÍ.

Með þessu hafa félögin BÍ88, KFÍ, Skellur og Sundfélagið Vestri sameinast í eitt félag með deildarskiptu starfi.

Vestri, áður BÍ/Bolungarvík, tekur þátt í Riðli tvö í B-deild Lengjubikarsins og mun spila sinn fyrsta leik undir nýja nafninu á móti KV í Akraneshöllinni annað kvöld.

Vestri tekur þátt í 2. deildinni í sumar en liðið mun spila heimaleiki sína á Torfnesvelli eins og lið BÍ/Bolungarvíkur sem féll út 1. deildinni síðasta haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×