Samkvæmt AP fréttaveitunni sagðist hann upprunalega vera frá Palestínu. Hann heldur því einnig fram á myndbandi sem birt var í dag, þar sem hann hefur verið handsamaður.
Kúrdar segja manninn hafa barist fyrir ISIS í Írak en hershöfðinginn Feisal Helkani segir manninn heita Mohammed Jamal Amin. Í fórum hans fundust þrír símar, þrjú mismunandi skilríki, þar á meðal bandarískt ökuskírteini, og peningar.
Á ökuskírteininu stóð hins vegar Mohammed Jamal Khweis. AP ræddi við föður hans sem sagðist vera á leið á fund með embættismönnum í Bandaríkjunum. Hann brást reiður við spurningum um son sinn og sagði hann vera fullorðinn mann. Það væri ósanngjarnt að spyrja sig út í soninn.
Yfirvöld í Bandaríkjunum vinna nú að því að staðfesta að maðurinn sé frá Bandaríkjunum.
Sameinuðu þjóðirnar telja að um 30 þúsund erlendir vígamenn starfi með ISIS, al-Qaeda og öðrum vígahópum í Sýrlandi. ISIS hafa tapað miklu svæði í Írak undanfarna mánuði og Kúrdar segja að sífellt fleiri vígamenn gefist upp.