England vann frábæran 2-3 endurkomusigur á heimsmeisturum Þýskalands í vináttulandsleik á Ólympíuleikvanginum í Berlín í kvöld.
Eric Dier skoraði sigurmark Englendinga með skalla eftir hornspyrnu Jordans Henderson í uppbótartíma en liðið lenti 2-0 undir í seinni hálfleik.
Toni Kroos kom Þjóðverjum yfir tveimur mínútum fyrir hálfleik með skoti sem Jack Butland í marki Englands hefði átt að verja. Skömmu síðar fór Butland meiddur af velli og í hans stað kom Fraser Forster, markvörður Southampton.
Mario Gómez tvöfaldaði forystu Þjóðverja á 57. mínútu með skalla eftir góða sendingu Sami Khedira. Þetta var fyrsta landsliðsmark Gómez frá því í júní 2012.
Þrátt fyrir mótbyr gáfust Englendingar ekki upp og Harry Kane minnkaði muninn með skoti í stöng og inn á 61. mínútu.
Enska liðið var mun sterkari aðilinn í seinni hálfleik og á 75. mínútu jafnaði varamaðurinn Jamie Vardy metin með sínu fyrsta landsliðsmarki. Markið var af dýrari gerðinni en Vardy setti boltann með hælnum framhjá Manuel Neuer í marki Þjóðverja eftir fyrirgjöf Nathaniels Clyne.
Það var svo Dier sem tryggði Englendingum sigurinn eins og áður sagði. Lokatölur 2-3, Englandi í vil.
