Innlent

Framsókn hittist en ekkert að frétta hjá Sjálfstæðismönnum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bjarni Benediktsson sagðist í gær ekki sækjast eftir forsætisráðuneytinu.
Bjarni Benediktsson sagðist í gær ekki sækjast eftir forsætisráðuneytinu. Vísir/Anton Brink
Þingmenn Framsóknarflokksins hafa verið boðaðir á fund klukkan 18. Þar reikna þingmenn flokksins með því að Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherraefni flokksins, ætli að sækja umboð flokksins til þeirrar niðurstöðu sem þeir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafa komist að í viðræðum þeirra.

Frosti Sigurjónsson segist í samtali við Vísi reikna með því að fundurinn fari fram í þingflokksherbergi flokksins á Alþingi og sömu sögu er að heyra frá öðrum þingmönnum flokksins sem eru á leið til fundar þangað.

Sigurður Ingi mun ræða við fjölmiðla að fundinum loknum en ekki liggur fyrir hvort um einhliða fund Framsóknar er að ræða eða hvort Bjarni Bendiktsson verði einnig á þeim fundi. Reiknað hafði verið með því að þar yrði tilkynnt um samkomulag þeirra Bjarna og Sigurðar Inga en það hefur ekki fengist staðfest.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa hver á fætur öðrum komið af fjöllum þegar fréttastofa hefur náð sambandi við þá. Enginn hefur verið boðaður á fund en þeir eru þó allir í startholunum verði haft samband við þá.

Eins og staðan er núna er því ljóst að Framsókn fundar klukkan 18 og ræða við fjölmiðla að fundi loknum. RÚV hefur heimildir fyrir því að niðurstaða Bjarna og Sigurðar Inga sé sú að boðað verði til þingkosninga í haust. 

Uppfært klukkan 18:28

Þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks funda hvor í sínu lagi klukkan 18:45 í Alþingishúsinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×