Innlent

Kemur til greina að opna bókhaldið upp á gátt

Tryggvi Páll Tryggvason og Jóhann Óli Eiðsson skrifa
„Það getur verið að slíkt sé tímabært þó það sé auðvitað stórt skref að biðja maka sinn um að gera slíkt. Í þessu tilviki held ég að það sé orðið að sjálfsagðri kröfu að hún geri grein fyrir þessu,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson aðspurður um hvort hann og Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona hans, þyrftu ekki að opna bókhald sitt upp á gátt til að færa sönnur á að skattar hafi verið greiddir af félagi hennar á Tortóla. Sigmundur bætti því við að þá væri einnig rétt að aðrir myndu gera slíkt hið sama.

Sigmundur Davíð var gestur Andra Ólafssonar og Fanneyjar Birnu Jónsdóttur í Íslandi í dag að loknum fréttum. Málið sem var til umræðu er hlutur Sigmundar og eiginkonu hans í Panama lekanum. 

„Ég hugsaði eiginlega ekkert um þetta félag enda var það bara eitthvað sem var að bak við þennan reikning konunnar minnar. Hinsvegar hugsaði maður með sér í kosningabaráttunni 2013 hvort að maður ætti að státa sig af því að vera að berjast fyrir því að færa niður húsnæðisskuldir og rétta við efnahagslífið og um leið að fórna eignum konunnar sinnar.“

Forsætisráðherrann var einnig spurður af þáttastjórnendum hvers vegna hann hefði til að mynda neitað að ræða við fjölmiðla og RÚV sérstaklega í því samhengi. Hann sagði að það væri rétt að hann hefði ekki verið sáttur við nálgun RÚV. Það hafi til að mynda ekki vakið kátínu hjá honum þegar hann hafi sagt satt og rétt frá málunum að þá hafi RÚV leitað til annarra í kjölfarið.

Sigmundur sagði að eftir á sæi hann eftir því að hafa ekki sagt frá málinu fyrr. „Ég hélt alltof lengi í þau grundvallarprinsipp að blanda ekki málefnum eiginkonu minnar og fjölskyldu minnar í þennan slag. Það eru ein af mistökum mínum í þessu máli að ég hefði átt að gera það fyrr þó að með því hefði ég verið að brjóta blað því stjórnmálamenn gera það almennt ekki,“ sagði Sigmundur Davíð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×