Íslenski boltinn

Strákarnir kláruðu sitt og skoruðu ekki sjálfsmark í lokin | Eru samt úr leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Íslenska sautján ára landsliðið í knattspyrnu komst ekki í úrslitakeppni Evrópumótsins þrátt fyrir 1-0 sigur á Grikklandi í lokaleiknum sínum.

Austurríki vann Frakkland 2-1 í hinum leiknum og tryggði sér sæti á EM ásamt Frökkum sem voru búnir að vinna riðilinn fyrir lokaumferðina.

Austurríkismenn skoruðu sigurmarkið sitt á þriðju mínútu í uppbótartíma en á þeim tímapunkti þurftu bæði Frakkar að skora og Íslendingar að fá á sig mark til þess að íslensku strákarnir kæmust áfram.

Íslenska liðið sleppti því þó að skora sjálfsmark í lokin heldur kláraði sinn leik og landaði flottum sigri.

Hefðu Austurríkismenn ekki skorað þá hefði íslenska liðið endaði í öðru sæti riðilsins en verið eina liðið í öðru sæti sem sat eftir. Sigurvegarar riðlanna og sjö af átta liðum í öðru sæti komust í úrslitakeppnina.

Helgi Guðjónsson skoraði sigurmark íslenska liðsins á 63. mínútu eftir að hafa fengið stoðsendingu frá Jónatan Inga Jónssyni. Þetta var eina mark íslenska liðsins í riðlinum.

Helgi Guðjónsson skoraði sigurmark Íslands.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×