Innlent

Mikil aukning umferðar á hringveginum það sem af er ári

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Umferðin er alltaf að aukast.
Umferðin er alltaf að aukast. Vísir/Ernir
Fyrstu þrjá mánuði ársins hefur umferð á hringveginum aukist um sautján prósent og hefur slík aukning hefur aldrei áður mælst miðað við árstíma. Þá er gríðarleg aukning á umferð um Mýrdalssand á milli mánaða.

Frá áramótum hefur umferð á hringveginum á Austurlandi aukist um 36,9 prósent, á Suðurlandi um 23,8 prósent en minnst er aukningin á höfuðborgarsvæðinu, 10,8 prósent. Þegar leitað er skýringa á þessaru miklu aukningu nefnir Vegagerðin hugsanlegar skýringar til sögunnar: Mikil aukning erlendra ferðamanna, aukinn kaupmáttur, ódýrt bensín og hugsanlega betri tíð það sem af er ári miðað við meðalár.

Rauða línan táknar umferð það sem af er ári. Smella má á myndina til að sjá hana stærri.Mynd/Vegagerðin
Umferðin eykst einnig gríðarlega milli mánaða 2015 og 2016 en sé miðað við mars í fyrra varð 20 prósent aukning á umferð mars á þessu ári. Svo mikil aukning hefur aldrei áður mælst á milli mánaða á hringveginum. Mesta aukningin varð á veginum um Mýrdalssand en þar jókst umferðin um tæp 83 prósent milli mánaða. Umferð á þessum stað hefur verið að aukast gríðarmikið undanfarin ár, t.d. jókst umferðin á þessu svæði um 77 prósent milli aprílmánaða 2013 og 2014.

Vegagerðin segir að enn sé of snemmt til að spá í horfur fyrir heildarumferð á árinu 2016 en telur líklegt miðað við þær tölur sem hafa verið birtar um umferð það sem af er ári að líklegt sé að umferð á hringveginum muni aukast mikið á árinu 2016 miðað við síðasta ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×