Sport

Eygló, Hrafnhildur og Anton Sveinn öflug í Íslandsmeistaramótinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eygló Ósk Gústafsdóttir, íþróttamaður ársins 2015, bætti tvennum gullverðlaunum í sarpinn á öðrum degi Íslandsmeistaramótsins í sundi.

Eygló hefur alls unnið til fimm gullverðlauna á ÍM en í dag varð hún hlutskörpust í 100 metra baksundi og var auk þess hluti af sigursveit Ægis í 4x100 metra fjórsundi.

Eygló kom í bakkann á 1:00,88 sekúndum í 100 metra baksundinu. Íslandsmet hennar í greininni er 1:00,25 mínútur.

Hrafnhildur Lúthersdóttir nældi sér einnig í tvenn gullverðlaun í dag. Hrafnhildur sigraði í 50 metra bringusundi og 200 metra fjórsundi.

Hrafnhildur synti á 31,47 sekúndum í 50 metra bringusundinu og á 2:14,94 mínútum í 200 metra fjórsundinu.

Anton Sveinn McKee gerði það gott í dag en hann vann til þriggja gullverðlauna og setti auk þess eitt Íslandsmet.

Anton náði sér vel á strik í 200 metra fjórsundinu þar sem hann synti á 2:04,73 mínútum og setti þar með nýtt Íslandsmet. Hann átti gamla metið sjálfur, 2:05,54 mínútur.

Anton sigraði einnig í 50 og 200 metra bringusundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×