Innlent

Stjórnvöld bregðist við ástandinu í Mývatni

Höskuldur Kári Schram skrifar
Höskuldur Þórhallsson formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis telur að stjórnvöld verði að bregðast við þeirri alvarlegu stöðu sem upp er komin í lífríki Mývatns . Nefndin fundaði í morgun með sérfræðingum og sveitarstjórnarmönnum á svæðinu.

Landvernd skoraði nýlega á ríkisstjórnina að grípa til aðgerða vegna þeirrar stöðu sem upp er komin í Mývatni. Lífríkið er sagt í bráðri hættu vegna meðal annars frárennslismála og álags af mannavöldum. Kúluskíturinn sé horfinn og hornsíla- og bleikjustofn vatnsins sé ekki svipur hjá sjón.

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis fundaði í morgun með séfræðingum og sveitarstjórnarmönnum á svæðinu vegna málsins.

„Ég held að það liggi fyrir að stjórnvöld verða að bregðast við með einum eða öðrum hætti. Staðan er alvarleg. Ég held að það sé mjög mikilvægt að umhverfisnefnd Alþingis fjalli um málið á mjög yfirvegaðan hátt og það erum við að gera,“ segir Höskuldur.

Hann segir að stjórnvöld geti meðal annars aðstoðað sveitarfélagið við að koma frárennslismálum í viðunandi horf.

„Það var sett reglugerð árið 2012 sem lagði auknar kvaðir á sveitarfélagið og það hefur ekki bolmagn til þess að ráðast í þær fjárfreku framkvæmdir. Við þurfum að skoða það mjög alvarlega að mínu mati. Svo verðum við að tryggja að rannsóknir á lífríki Mývatns verði auknir þannig að við vitum eins nákvæmlega eins og hægt er hvað er á seyði í þessu dýnamíska vatni,“ segir Höskuldur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×