Innlent

Kristján Möller hættir á þingi í haust

Birgir Olgeirsson skrifar
Kristján Möller.
Kristján Möller. Vísir/Ernir
Kristján Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur tilkynnt flokksfélögum sínum í Norðausturkjördæmi að hann muni ekki leita eftir endurkjör í komandi kosningum til Alþingis sem boðaðar eru í haust.

Kristján greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni en þar segist hann hafa tekið þessa ákvörðun í vor eftir vandlega yfirferð með fjölskyldu sinni sem hann segir sína bestu stuðningsmenn og ráðgjafa.

Hann tók fyrst sæti á Alþingi sem þingmaður gamla Norðvesturkjördæmis eftir kosningarnar árið 1999 en frá árinu 2003 hefur hann setið sem þingmaður Norðausturkjördæmis eftir að kjördæmaskipan var breytt.

Árin hans á þingi eru því orðin 17 talsins en hann segist hafa tekist á við mörg skemmtilegt og spennandi verkefni. Verið formaður nefnda, varaforseti Alþingis, varaformaður og ritari þingflokks ásamt því að gegn embætti ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála.

„En nú er sem sagt komið að því að taka upp tjaldhælana og láta staðar numið. Ég þakka stuðningsmönnum, kjósendum og samferðafólki á Alþingi fyrir samstarfið og traustið sem mér hefur verið sýnt í þessu skemmtilega og mikilvæga starfi sem starf alþingismanns er. Nokkrir mánuðir eru enn eftir af þinginu og mun ég sem fyrr tala fyrir gildum jafnaðarmanna,“ segir Kristján á Facebook-síðu sinni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×