Fótbolti

Viðar: Fólk með skítkast þegar sóknarmenn skora ekki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Viðar Örn Kjartansson.
Viðar Örn Kjartansson. Vísir/Vilhelm
Viðar Örn Kjartansson breyttist úr skúrki í hetju á augabragði þegar hann skoraði þrennu í 3-0 sigri Malmö á Häcken í sænsku úrvalsdeildinni um helgina.

Viðar Örn kom til Malmö í janúar frá Jiangsu frá Kína og voru miklar væntingar bundnar við hann. Honum gekk vel að skora á undirbúningstímabilinu en svo þegar tímabilið hófst þá létu mörkin bíða eftir sér.

Selfyssingurinn skoraði ekki í fyrstu fimm deildarleikjum sínum með Malmö þar til að það kom að leiknum gegn Häcken um helgina.

„Maður má ekki missa trúna. Ég hafði ekki skorað í fimm leikjum og það hefur ekki gerst hjá mér í langan tíma. Þetta hefur verið erfitt en maður verður að hafa trú á sjálfum sér,“ sagði Viðar Örn.

Sjá einnig: Viðar Örn hakkaði í sig Häcken

Stuðningsmenn Malmö voru búnir að vera duglegir að gagnrýna hann en þeir stóðu á fætur og klöppuðu honum lof í lófa þegar Viðari erni var skipt af velli um helgina.

„Það var frábært að skora þrjú mörk. Pressan á mér hefur verið mikil,“ sagði Viðar en hvað með stuðningsmennina sem snerust svo skyndilega honum á band?

„Svona er þetta bara. Maður verður bara að hafa trú á sjálfum sér,“ sagði Viðar og bætti við að sjálfstraustið hefði minnkað aðeins í markaþurrðinni.

„Ég missti sjálfstraustið aðeins í vítateignum og var orðinn svolítið stressaður. En það gerist þegar maður skorar ekki í fimm leikjum í röð.“

Malmö og Häcken mætast aftur strax á fimmtudag, þá í úrslitaleik sænsku bikarkeppninnar.


Tengdar fréttir

Viðar Örn hakkaði í sig Häcken

Viðar Örn Kjartansson átti frábæran leik með Malmö í dag í heimasigri á Häcken í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta og Rúnar Már Sigurjónsson tryggði Sundsvall stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×