Fótbolti

Viðar Örn hakkaði í sig Häcken

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viðar Örn Kjartansson.
Viðar Örn Kjartansson. Vísir/Vilhelm
Viðar Örn Kjartansson átti frábæran leik með Malmö í dag í heimasigri á Häcken í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta og Rúnar Már Sigurjónsson tryggði Sundsvall stig.

Viðar Örn Kjartansson skoraði þrennu fyrir Malmö í 3-0 sigri á Häcken í dag og hefur nú skorað sex mörk fyrir félagið á tímabilinu. Þetta voru hinsvegar fyrstu mörk hans í sænsku deildinni því hin mörkin komu í bikarnum.

Viðar skoraði mörkin sín 34., 38. og 66. mínútu og fékk síðan heiðursskiptingu á 70. mínútu. Malmö endaði leikinn manni færri því Markus Rosenberg fékk rautt spjald í blálokin.

Kári Árnason var allan tímann í miðri vörn Malmö sem hélt hreinu í þriðja deildarleiknum í röð.

Malmö var í áttunda sæti fyrir leikinn en sigurinn skilaði liðinu upp í annað sætið á eftir toppliði Norrköping.

Rúnar Már Sigurjónsson tryggði Sundsvall 1-1 jafntefli á móti Hammarby á útivelli þegar hann skoraði á 58. mínútu en Hammarby hafði komist yfir sex mínútum fyrr.

Sundsvall er nú í þriðja sæti deildarinna með tólf stig erins og bæði Malmö og Norrköping.

Rúnar Már hefur nú skorað þrjú mörk fyrir Sundsvall í fyrstu sex umferðum tímabilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×