Fjölskyldur nokkurra leikmanna landsliðsins hafa haldið til í Annecy líkt og strákarnir og séð eitthvað af sínum strákum í stundum milli stríða. Aðrar fjölskyldur voru að hitta þá í fyrsta skipti í tíu daga en sumar náðu þó að hitta þá í mýflugumynd eftir jafnteflið gegn Portúgal í Saint-Étienne.
Eiður Smári Guðjohnsen sagði í viðtali við blaðamenn í dag að það hefði verið æðislegt að hitta konu sína og börn eftir leikinn í gær.

Svekkelsið var mikið í herbúðum íslenska liðsins eftir jafnteflið í gær sem allt stefndi í að yrði sögulegur 1-0 sigur á Ungverjum. Sjálfsmark undir lokin tryggði Ungverjum stigið og þeir fögnuðu gríðarlega enda svo gott sem komnir í sextán liða úrslit.
Strákarnir okkar vöknuðu svo snemma í morgun og tóku flug frá Marseille til Annecy klukkan 11:30 að staðartíma. Þar halda þeir til fram á þriðjudag þegar flogið verður á vit næsta skrefs í EM-ævintýrinu í París. Andstæðingurinn er Austurríki, miðvikudaginn 22. júní, og sæti í 16-liða úrslitum í húfi.
Pattra Sriyanonge, Alexandra Helga Ívarsdóttir, Sandra Steinarsdóttir, Fríða Rún Einarsdóttir og Hólmfríður Björnsdóttir voru saman á leiknum í Marseille í gær. Þær eru stoltar af strákunum sínum.
Pattra hitti Theodór Elmar sinn eftir leikinn.
Stelpurnar eru að sjálfsögðu klæddar í treyjur sinna leikmanna í Frakklandi