Um níu þúsund Íslendingar hvöttu strákana okkar til dáða í baráttunni gegn Ungverjum á Stade Vélodrome í gær. Eins og alþjóð veit voru okkar menn nokkrum mínútum frá fræknum sigri en eru þó enn ósigraðir á EM eftir tvo leiki.
Marseille var undirlögð íslenskum og ungverskum stuðningsmönnum fyrir leik. Stærstur hluti Íslendinga kom við á ströndinni þar sem stuðningsmannasvæðið í Marseille er staðsett.
Veðrið hefur verið betra á suðurströnd Frakklands en nokkuð blés auk þess sem óveðursský létu sjá sig. Sem betur fer kom ekki til úrhellis og voru sumir Íslendingar berir að ofan og unnu í taninu.
Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, myndaði Íslendinga á stuðningsmannasvæðinu í gær.

