Steve McManaman og Craig Burley, sérfræðingar ESPN, ræddu vítaspyrnudóminn í viðureign Íslands og Ungverjalands þegar þeir gerðu upp leikinn í gær.
Á 38. mínútu dæmdi Rússinn Sergei Karasev vítaspyrnu á Tamás Kádár, varnarmann Ungverja, fyrir brot á Aroni Einari Gunnarssyni, fyrirliða íslenska liðsins.
Ungversku leikmennirnir voru ekki sáttir með dóminn en Gylfa Þór Sigurðssyni var alveg sama. Swansea-maðurinn fór á punktinn, skoraði af öryggi og kom Íslandi yfir.
Sjá einnig: Sjáðu fagnaðarlætin í Marseille þegar Gylfi skoraði
„Það er ekki mikil snerting en Aron lætur dómarann alveg vita með því að setja hendurnar upp í loft,“ sagði McManaman.
Að mati Burleys er Kádár að aðalsökudólgurinn í þessu máli.
„Kádar, vinstri bakvörðurinn, er mjög klaufalegur. Það er snerting og því oftar sem þú sérð þetta skilurðu betur af hverju hann dæmdi víti,“ sagði Burley.
Sjá einnig: Twitter sprakk eftir vítið hans Gylfa: „Ég gleypti í mér tunguna!“
Mark Gylfa dugði Íslandi þó ekki til sigurs. Íslensku strákarnir eru þó í ágætis stöðu fyrir lokaumferðina og geta enn unnið F-riðilinn.

