Íslenski boltinn

Eyjakonur fyrstar í átta liða úrslitin

Tómas þór Þórðarson skrifar
Sigríður Lára Garðarsdóttir skoraði tvö mörk fyrir ÍBV í kvöld.
Sigríður Lára Garðarsdóttir skoraði tvö mörk fyrir ÍBV í kvöld. vísir/eyþór
ÍBV varð í kvöld fyrsta liðið til að komast í átta liða úrslit Borgunarbikars kvenna þegar liðið lagði KR, 3-1, á Alvogen-vellinum.

KR, sem er með tvö stig í næstneðsta sæti Pepsi-deildarinnar, komst yfir gegn ÍBV á tólftu mínútu þegar Sigríður María Sigurðardóttir skoraði, 1-0.

ÍBV jafnaði metin á 28. mínútu en þar var að verki Sigríður Lára Garðarsdóttir og staðan í hálfleik, 1-1.

Eftir aðeins fjórar mínútur í seinni hálfleik skoraði Díana Dögg Magnúsdóttir annað mark ÍBV en Díana, sem er einnig frábær handbolta kona, skipti úr ÍBV í Val í handboltanum eftir að tímabilinu lauk.

Sigríður Lára Garðarsdóttir gerði svo út um leikinn, 3-1, með öðru marki sínu á 88. mínútu leiksins og Eyjakonur fyrstar í átta liða úrslitin.

Sextán liða úrslit Borgunarbikars kvenna halda áfram á morgun þegar sex leikir verða spilaðir en umferðinni lýkur svo á sunnudaginn með leik HK/Víkings og Þróttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×