Óhætt er að segja að París hafi orðið að borginni hans Will Grigg í gær þegar Norður-Írar tryggðu sér sæti í sextán liða úrslitum eftir 1-0 tap gegn Þjóðverjum á Parc des Princes.
Þrátt fyrir það spilaði Will Grigg ekki mínútu í leiknum í gær, og hefur reyndar ekki spilað mínútu á Evrópumótinu. Engu að síður hefur líklega ekki verið sungið jafnmikið um nokkurn leikmann á EM.
Stuðningsmenn Norður-Íra láta vel í sér heyra til heiðurs Will Grigg.
„Will Grigg’s on fire, your defence is terrified - Will Grigg’s on fire“ sem mætti snara yfir á íslensku einhvern veginn svona:
„Það er kviknað í Will Grigg, vörnin ykkar er skíthrædd því það er kviknað í Will Grigg.“
Sean Kennedy, stuðningsmaður Wigan sem byrjaði að syngja lagið fékk ársmiða að launum frá David Whelan, stjórnarformanni Wigan. Myndband hans má sjá að neðan en yfir milljón manns hafa horft á það.
Það er ekki beint hægt að segja að Will Grigg hafi gert neitt til að verðskulda að allir stuðningsmenn á Evrópumótinu í knattspyrnu taki undir með Norður-Írum en lagið hefur svo sannarlega slegið í gegn. Allir syngja með og Parísarbúar fóru eflaust margir að sofa í gær með lagið á heilanum.
Mats Hummels, varnarmaður Þjóðverja, var spurður út í það á blaðamannafundin fyrir leikinn gegn Norður-Írum hvort hann væri hræddur við Will Grigg af því það væri kviknað í honum. Hummels játaði því í gríni og sagðist hafa heyrt lögin og sögurnar af Will Grigg. Hann ætlaði því að skiptast á treyjum við hann eftir leik en reiknaði með mikilli samkeppni frá liðsfélögum sínum.
Ójá, meðan ég man. Will Grigg er 24 ára framherji og spilar með Wigan Athletic. Hann hefur skorað eitt mark í átta landsleikjum fyrir Norður-Íra.