Eric Cantona hefur komið með reglulega pistla á meðan mótið hefur verið í gangi og sá nýjasti kemur að sjálfsögðu inn á leik Íslands og Englands og eftirmála hans.
Cantona lítur svo á stöðu mála í dag að það besta fyrir enska landsliðið sé að hann taki að sér þjálfun liðsins.
„Skömm, niðurlæging, versti dagur í sögunni ... allt stór orð. Enska knattspyrnusambandið hefur þegar hafið leit að nýjum þjálfara og þeir segja að þeir ætli sér að finna besta manninn í starfið og hann þarf ekki endilega að vera Englendingur," segir Eric Cantona og heldur svo áfram:
„Ég heyrði þetta ákall og þess vegna hef ég ákveðið að bjóða mig fram í starfið. Ég, Eric Cantona, framtíðar landsliðsþjálfari Englands, lof að tapa aldrei aftur á móti lítill frosinni eyju þar sem markvörðurinn er kvikmyndaleikstjóri og annar þjálfaranna tannlæknir," lýsir Eric Cantona yfir í einræðu sinni.
„Ég, Eric Cantona, mun biðja til fótboltaguðanna um að enda álögin á markvörðum enska landsliðsins. Ég mun biðja risann Harry Kane að hætta að taka hornspyrnur og aukaspyrnur en fara þess í stað inn í teig til að skalla þær í markið," segir Eric Cantona.
Hann heldur áfram eins og sjá má í myndbandinu hér fyrir neðan og bendir þar sérstaklega á það að hann sé fæddur árið 1966 en það er einmitt síðasta og eina árið sem enska landsliðið vann stóran titil í heimsfótboltanum.
„Ég, Eric Cantona, mun heldur aldrei gagnrýna Wayne Rooney á meðan að hann fer ekki í annað félag," sagði Eric Cantona og smellir koss á Manchester United treyju númer sjö.
Eric Cantona hefur reynt fyrir sér leikari og þessi stórskemmtilegi karl stendur sig vel í þessu hlutverki. Hann segist meira að segja vera tilbúinn að gefa eftir titilinn „Eric kóngur" fyrir „Eric yfirmaður" á meðan hann þjálfar enska liðið. Við mælum því með því að fólk kíki á klippuna hér fyrir neðan.