„Mig vantar alla þá hjálp sem hægt er til að koma trukknum mínum í gang. Þetta er ekki erfið vinna. Við erum bara að klára að double teipa silfurefnið á einhyrninginn,“ sagði Páll Óskar á Facebook-síðu sinni. „Plís hjálp, annars fer þessi trukkur ekki í gönguna.“
Vagnar Páls Óskars hafa jafnan vakið mikla athygli og á síðasta ári „sigldi“ hann á víkingaskipi í Gleðigöngunni. Þegar Vísir náði tali af Páli Óskari sagði hann að neyðarkallið hafi skilað sínu og að takast myndi í tæka tíð að klára vagninn.
Gleðigangan í Reykjavík fer fram í dag klukkan tvö, en gengið verður frá BSÍ og að Arnarhóli. Þar mun svo fara fram skemmtidagskrá þar sem fjölmargir listamenn koma fram, meðal annars Páll Óskar.
Þá mun Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flytja hátíðarræðu.