Innlent

Vill betri umferðarmerkingar og fleiri hringtorg

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Þingmaðurinn gerði samgöngumál að umtalsefni sínu á Alþingi í dag.
Þingmaðurinn gerði samgöngumál að umtalsefni sínu á Alþingi í dag. Vísir/Pjetur
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gerði samgöngumál að umtalsefni sínu undir dagskrárliðnu Störf þingsins á Alþingi í dag. Þar sagði hann meðal annars að auðvelt væri að leggjast í ódýrar aðgerðir til að auka umferðaröryggi á meðan biðið er eftir stærri og kostnaðarsamari framkvæmdum.

Í ræðu sinni benti Vilhjálmur meðal annars á að flest alvarleg umferðarslys verði við gatnamót og að skynsamlegt væri að fjölga hringtorgum til að sporna við umferðarslysum. „Eitt banaslys kostar að lágmarki 100 milljónir en oft er hægt að leysa þetta mál með því að gera hringtorg fyrir 150 milljónir. Eitt banaslys er jafn dýrt og eitt hringtorg og þess vegna eigum við að ganga í þessi mál strax á meðan við erum að koma okkur í að fara í alvörufjárfestingar í samgöngumálum,” sagði Vilhjálmur.

Meðal þess sem Vilhjálmur telur að hægt sé að gera er að merkja einbreiðar brýr, bæði með blikkljósum og kantlínum, ákveða umferðarforgang og lækka hámarkshraða í kringum þær þar til hægt er að gera brýrnar tvíbreiðar.

Þá sagði Vilhjálmur einnig að til að draga úr fjölda bíla í vegaköntum, væri hægt að mála kantlínur við þjóðvegina sem sýndi að þar megi ekki stöðva eða leggja bílnum. „Ef við hefðum þessar línur hér værum við búin að draga úr þessu í staðinn fyrir að kalla alltaf eftir miklu stærri aðgerðum og fjölga útskotum, sem má vissulega gera, en það eru svona smáhlutir sem við þurfum að hugsa um til að auka umferðaröryggi og ganga í það.”

Ræðu Vilhjálms má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×