Innlent

Bein útsending: Kynna ný úrræði fyrir ungt fólk við kaup á fyrstu íbúð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson þegar þeir kynntu nýja ríkisstjórn.
Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson þegar þeir kynntu nýja ríkisstjórn. vísir/Ernir
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra munu klukkan 13 í dag kynna ný úrræði ríkisstjórnarinnar til að aðstoða ungt fólk við kaup á fyrstu íbúð.

Úrræðin felast samkvæmt heimildum Vísis meðal annars í því að minnka vægi verðtryggingar og gera óverðtryggð lán að augljósari kosti.

Frumvarp til laga um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð annars vegar og frumvarp til breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu voru til umræðu á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.

Uppfært klukkan 14

Fundinum er lokið en að neðan má sjá tilkynningu frá ráðuneytinu vegna fundarins. Þar fyrir neðan eru tenglar á nýjar fréttir í framhaldi af fundinum.

Fasteignakaup verða auðveldari og afborganir léttari fyrir nýja kaupendur á fasteignamarkaði verði tillögur ríkisstjórnarinnar í frumvarpi til laga um stuðning við kaup á fyrstu íbúð samþykktar.

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynntu aðgerðirnar í Hörpu í dag. Tilgangurinn er að auka og hvetja til húsnæðissparnaðar og auðvelda fyrstu kaup. Jafnframt fela þær í sér stuðning við þá sem vilja taka óverðtryggð lán þar sem samspil greiðslna inn á höfuðstól og afborganir gera greiðslubyrði þeirra á fyrstu árum sambærilega við löng verðtryggð lán hjá þorra einstaklinga.

Í frumvarpinu er kveðið á um þrjár leiðir sem rétthafi getur valið á milli við ráðstöfun á viðbótariðgjaldi. Þær eru heimild til úttektar á uppsöfnuðu viðbótariðgjaldi til kaupa á fyrstu íbúð, heimild til að ráðstafa viðbótariðgjaldi inn á höfuðstól láns, sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð, yfir tíu ára samfellt tímabil og að lokum heimild til að ráðstafa viðbótariðgjaldi sem afborgun inn á óverðtryggt lán, sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð, og sem greiðslu inn á höfuðstól þess.

Úrræðið er varanlegt en hámarkstími er samfellt tíu ára tímabil fyrir hvern einstakling. Greiðslur hvers einstaklings inn á séreignarsparnað geta numið allt að fimm milljónum króna á tíu ára tímabili, samtals 10 milljónir fyrir par. Fyrir þá sem ekki eru þegar með séreignarsparnað getur sú ákvörðun að leggja fyrir og nýta sparnað til húsnæðiskaupa samsvarað um 3% launahækkun í 10 ár vegna skattalegs hagræðis og mótframlags launagreiðanda.

Fleiri ungir í foreldrahúsum

Á árunum 2005 til 2014 jókst hlutfall ungs fólks á leigumarkaði verulega, úr 12% í 31%. Jafnframt er fólk á aldrinum 25-29 ára mun líklegra til að búa í foreldrahúsum nú en fyrir áratug. Eftirspurn eftir minni íbúðum hefur einnig aukist mikið á undanförnum árum með tilheyrandi verðhækkun húsnæðis, en minnstu eignirnar hafa hækkað hlutfallslega mest og rúmlega tvöfalt meira en sérbýli frá árinu 2009.

Fyrirhuguð hækkun lífeyrissjóðsiðgjalda í 15,5% leiðir til þess að hjá einstaklingi sem byrjar snemma að leggja fyrir séreignarsparnað geta eftirlaun orðið hærri en laun við starfslok og því getur verið hagkvæmt að nýta hluta séreignarsparnaðar fyrr á æviskeiðinu.

Aðgerðirnar stuðla að heilbrigðari skuldahlutföllum heimila og auka getu til fjárfestingar í fyrstu fasteign, samhliða því að styðja við peningastefnuna með því að draga úr vægi verðtryggðra lána. Valfrelsi er þó lykilatriði og heimild til nýtingar skattfrjáls séreignarsparnaðar vegna kostnaðar af fyrstu fasteign er óháð lánsformi.

Úrræðin standa öllum til boða sem greiða eða munu greiða í séreignarsparnað og hafa ekki átt íbúð áður.

Núgildandi séreignarúrræði framlengt og takmörkun á hámarkslengd Íslandslána

Í frumvarpi til laga um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð verður jafnframt lagt til að gildandi úrræði um nýtingu séreignarsparnaðar til lækkunar á höfuðstól fasteignalána verði framlengt um tvö ár. Um 37 þúsund manns nýta þetta úrræði í dag. Lagt er til að einstaklingar sem þegar hafi hafið uppsöfnun á iðgjöldum, til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota á grundvelli núgildandi ákvæðis til bráðabirgða í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, en ekki nýtt sér þá heimild fyrir 1. júlí 2017, verði heimilað að flytja áunnin réttindi sín og nýta þau á grundvelli frumvarpsins ef um kaup á fyrstu íbúð er að ræða. Jafnframt er lagt til að rétthafar sem þegar hafa nýtt rétt á grundvelli umrædds ákvæðis til bráðabirgða og eftir atvikum ráðstafað iðgjöldum inn á höfuðstól fasteignarveðláns, sem tekið var í tengslum við öflun á íbúðarhúsnæðinu, verði heimiluð áframhaldandi nýting á viðbótariðgjaldi sínu til greiðslu inn á lánið uns tíu ára samfellda tímabili frumvarpsins er náð. Heimildin tekur til þeirra sem voru að kaupa sitt fyrsta húsnæði.

Þá verður lagt fram annað frumvarp um takmörkun 40 ára verðtryggðra jafngreiðslulána. Almenna reglan verður að ekki sé heimilt að taka verðtryggð jafngreiðslulán til lengri tíma en 25 ára. Undanþágur frá því verði veittar ungu fólki,tekjulágum einstaklingum og einstaklingum sem taka lán með lágu veðsetningarhlutfalli.

Helstu efnisþættir frumvarps um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð eru eftirfarandi:

Stuðningur fyrir þá sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð.

Úrræðið gildir í tíu ár samfellt.

Heimilar ráðstöfun séreignarsparnaðar sem safnast hefur upp á tilteknu tímabili til kaupa á fyrstu íbúð.

Heimilar ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á fasteignalán sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð og sem tekið var vegna kaupanna.

Heimilar ráðstöfun séreignarsparnaðar til afborgunar á óverðtryggðu láni og inn á höfuðstól láns, sem tryggt er með veði í húsnæðinu.

Séreignarsparnaður sem nýttur er til greiðslu inn á höfuðstól lána og eftir atvikum sem afborgun vegna kaupa á fyrstu íbúð er skattfrjáls.

Hámarksfjárhæðir og önnur viðmið:

Hámarksfjárhæð á ári (12 mánuðir), samtals 500 þús. kr. á einstakling.

Hámarksiðgjald, 4% frá launþega og 2% frá launagreiðanda.

Einstaklingur spari a.m.k. til jafns við framlag launagreiðanda.

Áskilið er að rétthafi eigi að minnsta kosti 50% hlut í íbúðarhúsnæðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×