Sport

Helgi varð fimmti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Helgi kastaði lengst 53,96 metra.
Helgi kastaði lengst 53,96 metra. vísir/getty
Helgi Sveinsson hafnaði í 5. sæti í spjótkasti, flokki F42, á Ólympíumóti fatlaðra í kvöld. Þetta er sama sæti og Helgi hafnaði í á Ólympíumótinu í London fyrir fjórum árum.

Helgi kastaði 53,96 metra í fyrsta kasti og setti þar með Ólympíumet í sínum flokki. Því miður tókst Helga ekki að kasta lengra í þeim fimm köstum sem hann átti eftir.

Helgi var þriðji til að byrja með en var kominn niður í 4. sætið eftir aðra umferðina.

Hann komst örugglega inn í átta manna úrslit en féll þar niður í 5. sætið sem varð svo hans hlutskipti.

Akeem Stewart frá Trínidad og Tóbagó varð hlutskarpastur en hann gerði sér lítið fyrir og setti heimsmet strax í fyrsta kasti (57,23 metrar). Hann bætti það svo í sjötta og síðasta kastinu þegar hann grýtti spjótinu 57,32 metra.

Kanadamaðurinn Alister McQueen varð annar með kasti upp á 55,56 metra og Ný-Sjálendingurinn Rory McSweeney tók bronsið með 54,99 metra löngu kasti.

Köst Helga:

53,96 - 48,88 - 52,72 - 53,45 - 53,32 - 49,99




Fleiri fréttir

Sjá meira


×