Erlent

Háttsettur leiðtogi al-Qaeda í Sýrlandi felldur

Samúel Karl Ólason skrifar
Fjölmargar fylkingar berjast um Aleppo og hafa bardagar þar verið einkar harðir á síðustu mánuðum.
Fjölmargar fylkingar berjast um Aleppo og hafa bardagar þar verið einkar harðir á síðustu mánuðum. Vísir/AFP
Einn æðsti leiðtogi Jabhat Fateh al-Sham hefur verið felldur í Sýrlandi. Abu Omar Saraqeb er sagður hafa fallið í loftárás nærri borginni Aleppo, en ekki er ljóst hverjir gerðu þá árás. Stjórnarher Sýrlands, Rússar og Bandaríkin hafa undanfarið gert loftárásir á Aleppo og nærliggjandi þorp.

Jabhat Fateh al-Sham voru áður kölluð Jabhat al-Nusra, eða Nusra Front, og er í raun deild al-Qaeda hryðjuverkasamtakanna í Sýrlandi. Hópurinn breytti um nafn í júlí og leiðtogi hans sagði að öllum tengslum við hryðjuverkasamtökin yrði slitið.

Þá var talið að ákvörðunin væri að mestu til sýnis, svo samtökin ættu auðveldara með að gera bandalög við uppreisnarmenn í Sýrlandi og mögulega komast hjá því að vera undanskilin mögulegum vopnahléum eins og Íslamska ríkið.

Samtökin eru þó áfram talin vera hryðjuverkasamtök.

Sjá einnig: Nusra front slítur sig frá al-Qaeda

Í frétt Reuters segir að loftárásin hafi verið gerð á fund leiðtoga al-Sham og segir ennfremur að óstaðfestar heimildir fréttaveitunnar hermi að aðrir leiðtogar samtakanna hafi einnig fallið í árásinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×