Íslamska ríkið er nú einangrað í Sýrlandi og í Írak. Tyrkir hafa lokað síðustu birgðaleiðum samtakanna yfir landamæri Sýrlands og Tyrklands. Samtökin eru nú umkringd og það gæti dregið verulega úr getu þeirra til að verja helstu vígi þeirra, Raqqa og Mosul.
Írakski herinn vinnur nú að því að frelsa Mosul á þessu ári og von er á að sýrlenskir Kúrdar og bandamenn þeirra muni herja á Raqqa seinna meir.
Hægt er að sjá grófa mynd af stöðunni í Sýrlandi og Írak hér.
Samkvæmt AP fréttaveitunni er hins vegar búist við því að ef og þegar ISIS verður rekið frá yfirráðasvæðum sínum í Sýrlandi og Írak muni þeir einbeita sér frekar að hryðjuverkaárásum í Mið-Austurlöndum og á Vesturlöndum.
Í raun muni samtökin verða aftur eins og samtökin sem þau urðu til úr, al-Qaeda.
Hilal Khashan, stjórnmálafræðiprófessor í Beirút, telur að Íslamska ríkið sé dauðadæmt í núverandi mynd. Vígamönnum þess hafi mistekist að stofna eigið ríki og þeir muni raka skegg sín, skipta um föt og ganga til liðs við aðra vopnaða hópa sem ekki séu taldir vera hryðjuverkasamtök.
Fyrr í dag bárust fregnir af því að tveir tyrkneskir hermenn hefðu látið lífið í átökum við vígamenn ISIS. Talið er að þeir séu fyrstu hermenn Tyrklands sem látast í bardögum þar.
ISIS einangrað í Sýrlandi og Írak

Tengdar fréttir

Vígamenn ISIS sagðir hafa óhlýðnast Bagdadi
Leiðtogi hryðjuverkasamtakana sagði mönnum sínum í Manbij að verjast til hins síðasta. Þeir flúðu.

Hernaðarlega mikilvægur bær úr höndum ISIS
Sýrlenskir uppreisnarmenn, dyggilega studdir af tyrkneska hernum og þeim bandaríska úr lofti, hafa náð bænum Jarablus úr klóm ISIS.

Tyrkir og Kúrdar semja um vopnahlé
Bandaríkin eiga að halda utan um vopnahléið

Bandaríkjamenn gagnrýna framgöngu Tyrkja í Sýrlandi
Sérlegur erindreki Bandaríkjaforseta segir að bardagar á svæðum þar sem liðsmenn ISIS væru hvergi nærri væru mikið áhyggjuefni.

Tyrkir senda skriðdreka til Sýrlands
Yfirvöld í Tyrklandi hafa heitið því að hreinsa landamæri sín af vígamönnum ISIS og „öðrum hryðjuverkamönnum“.