Erlent

Vopnahléið hangir á bláþræði

Samúel Karl Ólason skrifar
Úr Aleppo.
Úr Aleppo. Vísir/AFP
Vopnahlé Bandaríkjanna og Rússlands í Sýrlandi hangir á bláþræði. Talsmaður uppreisnarmanna sagði fyrr í dag að vopnahléið væri svo gott sem búið og gaf í skyn að uppreisnarhópar hefðu hafið undirbúning fyrir átök að nýju. Vopnahléið var sett á fyrir viku síðan og hefur víða verið rofið, þó það hafi haldið að mestu.

Nú um helgina gerðu Bandaríkjamenn loftárásir gegn liðsmönnum stjórnarhers Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, og felldu minnst 60 hermenn. Þeir segja árásirnar hafa verið gerðar fyrir misskilning og markmiðið hafi verið að ráðast á vígamenn Íslamska ríkisins.

Þá voru gerðar loftárásir á borgina Aleppo í morgun og er það í fyrsta sinn frá því að vopnahléið var sett á.

Enn hefur ekki tekist að koma neyðaraðstoð til íbúa austurhluta Aleppo þar sem uppreisnarmenn ráða ríkjum, en stjórnarherinn hefur setið um borgina í marga mánuði. Ekki hefur tekist að tryggja öryggi hjálparstarfsmanna á svæðinu.

Ásakanir ganga á víxl

Bandaríkin segja Rússa ekki hafa náð stjórn á stjórnarhermönnum á svæðinu og Rússar saka Bandaríkin um að ná ekki stjórn á uppreisnarhópum.

Einn liður í samkomulaginu um vopnahlé fól í sér að Bandaríkin og Rússlands hæfu sameiginlegar aðgerðir gegn ISIS og Jabhat Fateh al-Sham, áður Nusra Front og deildar al-Qaeda í Sýrlandi. Hófsömum uppreisnarhópum var gert að slíta sig frá JFS en það virðist ekki hafa gerst.

Háttsettur meðlimur rússneska hersins sagði TASS, sem rekin er af rússneska ríkinu, að það væri tilgangslaust fyrir stjórnarherinn að fylgja vopnahléinu á meðan uppreisnarhópar gerðu það ekki.

Átökin í Sýrlandi eru gífurlega flókin þar sem fjölmargir hópar berjast sín á milli og í mismunandi bandalögum.

Óöldin í Sýrlandi hefur staðið yfir í rúm fimm ár. Sameinuðu þjóðirnar héldu því fram í apríl að minnst 400 þúsund manns hefðu látið lífið, en þeir eru hættir að halda utan um þær tölur þar sem erfiðlega hefur gengið að sannreyna heimildir þeirra.


Tengdar fréttir

Tortryggnir á vopnahléið

Vikulangt vopnahlé tók gildi í gærkvöld í Sýrlandi. Uppreisnarmenn óttast að Assad forseti noti tækifærið til árása. Hjálparsamtök vilja nýta tímann.

Vopnahléið hélt fyrstu nóttina

Íbúar í Aleppo segjas nóttina hafa verið rólega og eftirlitsaðilar segja að engir borgarar hafi látið lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×