Sport

Fyrirliði bronsliðsins: Var ekki búin að reikna þetta út

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tanja Ólafsdóttir er fyrirliði blandaðs liðs Íslands í unglingaflokki sem nældi sér í brons á EM í hópfimleikum í Maribor í Slóveníu í dag.

Eftir brösugt gengi á trampólíni sýndi íslenska liðið glæsilegar gólfæfingar. Einkuninn fyrir dansinn var lesin síðust upp en áður en það var gert var Ísland í sjötta og neðsta sæti.

Einkunn upp á 21,783 skilaði íslenska liðinu hins vegar upp í 3. sætið en mikill fögnuður braust út meðal krakkanna eftir að einkuninn var lesin upp.

Tanja Ólafsdóttir, fyrirliði blandaða liðsins.vísir/ernir
„Þetta var geggjuð tilfinning. Ég get ekki lýst þessu, þetta var frábært,“ sagði Tanja hin kátasta eftir að hafa fengið bronsmedalíuna sína.

Eins og áður sagði gengu trampólínstökkin ekki nógu vel og því var ljóst að Ísland þyrfti að fá mjög háa einkunn fyrir dansinn til að komast á pall. En voru krakkarnir búnir að gefa upp alla von?

„Það voru sumir sem héldu það en ég var ekki búinn að reikna það út. Ég vonaðist bara til að við myndum ná þessu,“ sagði Tanja.

Íslenska liðið fékk hæstu einkunn allra liða fyrir dansinn og getur því titlað sig Evrópumeistara í dansi.

„Dansinn var frábær og við náðum að núllstilla okkur eftir trampólínið sem gekk ekki alveg nógu vel, þó nógu vel til að ná 3. sætinu,“ sagði Tanja að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×