Innlent

„Var Panama-lekinn kannski okkur að kenna líka?“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þingmenn stjórnarandstöðunnar voru ekki sáttir með að vera kennt um að mál fengi ekki framgang á þingi.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar voru ekki sáttir með að vera kennt um að mál fengi ekki framgang á þingi. Vísir/Anton/Ernir
„Var Panama-lekinn kannski okkur að kenna líka? Það virðist vera sem svo að allt sem hafi misfarist sé okkur að kenna,“ sagði Ásta Guðrún Helgadóttir þingmaður Pírata á þingi í dag. Tilefnið voru ummæli Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins sem hafði kennt stjórnarandstöðunni um að illa gengi að klára mikilvæg mál.

„Það er með ólíkindum að hafa orðið vitni að því hvernig stjórnarandstaðan hefur lagst gegn mjög stórum hagsmunamálum alveg sérstaklega hér í lok þings,“ sagði Jón og nefndi jöfnun lífeyrisréttinda, frumvarp um raflínur til að Bakka, frumvarpið um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem dæmi um málefni sem stjórnarandstaðan hefði staðið í vegi fyrir að næðu í gegn.

Þessu voru þingmenn stjórnarandstöðunnar ekki sammála og kom Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata í ræðustól en hafði þó ekki mörg orð um ræðu Jóns.

„Þetta er svo mikið leikrit að mér blöskrar. Ég vona að fólk sjái í gegnum þetta,“ sagði Halldóra.

Brynhildur Pétursdóttir, þingmaðir Bjartrar framtíðar, var ekki sátt við ummæli Jóns og sagði að hvorki hann né aðrir þingmenn vissu hvernig hún myndi haga atkvæði sínu í Bakkamálinu, hefði það komið til þings en ríkisstjórnin dró frumvarp sitt um raflínur að Bakka til baka í dag. Þá sagði hún fráleitt að halda því fram að stjórnarandstaðan hafi staðið í vegi fyrir jöfnun lífeyrisréttinda.

„Það er með ólíkindum að heyra því haldið fram að stjórnarandstaðan hafi staðið í vegi fyrir því máli. Ég held að stjórnarandstaðan hafi verið meira áfram um að klára það mál en fulltrúar meirihlutans,“ sagði Brynhildur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×