Chicago Cubs hefur ekki unnið síðan 1908 og Cleveland Indians vann síðast árið 1948. Hefur lengi verið talað um að bölvun hvíli á báðum félögum og því er einstaklega áhugavert að þau leiki til úrslita í ár. Nú er staðan sú að bölvun annars félagsins verður aflétt í nótt.
Margir héldu að Cleveland væri búið að tryggja sér titilinn er liðið komst í 3-1 í úrslitaeinvíginu sem Bandaríkjamenn kalla World Series.
Leikmenn Cubs voru komnir með bakið upp við vegginn og hafa heldur betur spyrnt frá sér. Þeir unnu fimmta leikinn, 3-2, á heimavelli og unnu svo stórsigur, 9-3, í Cleveland. Staðan er því 3-3.
Oddaleikurinn fer fram í Cleveland og verður afar áhugaverður. Þar verður saga annars félagsins skrifuð upp á nýtt á meðan bölvun hins félagsins heldur áfram.