Það var árið 1969 sem fræðimaðurinn Einar Pálsson birti byltingarkenndar kenningar sínar um að í Njálssögu væri fólgið goðfræðilegt táknmál sem úr mætti lesa það sem hann kallaði Hjól Rangárhverfis og væri byggt á ævafornri speki og helgum tölum. Samkvæmt þeim gegndi jörðin Steinkross lykilhlutverki. Hún var miðjan í þeirri heimsmynd sem Einar las úr launmáli Njálu.

„Það er sennilega með merkilegri uppgötvunum í Íslandssögunni. Einar Pálsson finnur þetta kerfi í Njálssögu, - í launmáli Njálssögu,” segir Pétur.
Kenningarnar hafa þó ætíð verið umdeildar, þannig segist Guðrún Sveinbjarnardóttir fornleifafræðingar ekki vita um neinn í sinni stétt sem trúi þessu.

Þeir eru þó til innan háskólasamfélagsins sem telja að þetta sé ekki tóm steypa. Þannig segir Gísli Sigurðsson, rannsóknarprófessor við Árnastofnun, að fram séu komnar viðurkenndar vísindarannsóknir sem sýni að miklu meira hafi verið hugsað um einmitt svona staðsetningar og einhverskonar mælingar en menn vissu fyrir 20-30 árum.

„Ég held því fram að hérna séu grafreitir, og jafnvel með þeim fyrstu sennilega, því miðað við þær heimsmyndir sem ég er að sjá um allan heim, þá eru grafreitir í miðjunni,” segir Pétur Halldórsson.
Ítarlega var fjallað um kenningar Einars Pálssonar í þættinum Landnemarnir.